Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8198
Vísitala neysluverðs er bjöguð og hefur verið það um alllanga hríð vegna kerfisskekkju í fasteignaverðvísitölunni reiknuð húsaleiga, undirvísitölu vísitölu neysluverðs.
Bjögunin er margþætt en er aðallega fólgin í því að ekki eru tiltæk næg gögn svo að mælingarnar og tilsvarandi útreikningar haldi gæðum sínum og endurspegli fasteignamarkaðinn, þ.e. kaup og sölu á íbúðarhúsnæði einstaklinga á Íslandi. Á þetta hafa alþjóðastofnanir ítrekað bent m.t.t. smáríkja.
Hagstofa Íslands þyrfti að færa skýrari rök fyrir því hvaða ávöxtunarkröfu stofnunin notar hverju sinni við núvirðingu kaupsamninga um fasteignir á Íslandi við mat á fasteignaverðvísitölunni reiknuð húsaleiga. Líkur eru á að stofnunin beiti ekki réttum aðferðum við ákvörðun á ávöxtunarkröfu. Í ljósi þess hve mikil áhrif slík ákvörðun getur haft á fjárhag fólks á Íslandi er afar brýnt að leitað verði allra leiða til að tryggja rétt mat hvað þetta varðar. Einnig eru líkur á að þetta geti valdið kerfisskekkju sem getur endurspeglast í rangri vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands vegna þess að ekki er beitt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum.
Afsölum á fasteignum er í mörgum tilvikum þinglýst án þess að kaupsamningum sé þinglýst samhliða. Afsöl innihalda yfirleitt ekki upplýsingar um kaupverð eigna, greiðsluform eða lánskjör og eru ekki talin fullnægjandi gögn við mælingar og útreikninga á fasteignaverðvísitölum. Veldur þetta umtalsverðum og viðvarandi skorti á gögnum bæði hjá Þjóðskrá Íslands og Hagstofu Íslands. Það að upplýsingar skortir af þessu tagi bjagar fasteignaverðvísitölu Hagstofu Íslands og þar með vísitölu neysluverðs. Þetta bjagar jafnframt mat Þjóðskrár Íslands sem reiknar út fasteignamat eigna á Íslandi og ákvarðar skattstofn sveitarfélaga.
Forsenda þess að fasteignaverðsvísitalan verði áreiðanlegri er að rannsóknir og upplýsingaöflum hjá Hagstofu Íslands (og fleirum) verði efld. Ætla má að einnig geti þurft að koma til lagabreytingar svo tryggja megi að gögn af markaði berist stofnunninni. Fara verður í ítarlegar endurbætur og endurútreikninga á vísitölu neysluverðs með hliðsjón af þeim niðurstöðum sem felast í þessari lokaritgerð og mikilvægi þess að gæta að fjármálastöðugleika á Íslandi um ókomin ár.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
sveinn_oskar_sigurdsson_master04.pdf | 2.11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |