Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8226
Þrátt fyrir ítarlegar reglur á sviði verðbréfamarkaðsréttar hefur markaðurinn ítrekað sætt misnotkun sem oft á tíðum hefur riðið honum að falli. Það mætti því halda því fram að vandamál markaðarins fælist fremur í erfiðleikum við að tryggja eftirfylgni við lögin heldur en lögunum sjálfum. Til þess að tryggja eftirfylgni með lögum almennt hafa viðurlög reynst lykilatriði og hafa fylgt lagasetningu um ómuna tíð. Ekki er þó vænlegt að beita viðurlögum við hverju sem er þar sem refsing hlýtur ávallt að teljast mjög þungbær fyrir þolanda. Þeir verndarhagsmunir sem viðkomandi lagaákvæðum er ætlað að vernda þurfa því að vera það mikilvægir að það réttlæti að lögð sé refsing við brotum á reglunni. Líkt og Páll Gunnar Pálsson, fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur sagt, er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið hafi á hverjum tíma góða tilfinningu fyrir því hvaða hagsmuna eftirlitinu er ætlað að gæta, en túlkun þess á lögum og reglum og eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum verður að skoða í því ljósi.
Í þessari ritgerð mun sjónum verða beint að þeim verndarhagsmunum sem lagaákvæðum IX. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er ætlað að vernda. Þessar reglur verðbréfamarkaðarins lúta að svokallaðri flöggunarskyldu. Hún felst í því að sá sem gegnum kaup eða sölu nær ákveðnum mörkum atkvæðisréttar í félagi skuli tilkynna það félaginu og Fjármálaeftirlitinu innan viss tíma. Eitt meginmarkmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir og skýra íslenskar flöggunarreglur en þær hafa nýlega tekið miklum breytingum. Fjallað verður um gildissvið reglnanna, þau mörk sem flöggunarskyldan myndast við, hver eða hverjir verða flöggunarskyldir og hvernig flöggunartilkynningin skal úr garði gerð. Þá verður umfjöllun um þær undanþágur sem gerðar eru frá meginreglunni um flöggunarskyldu. Líkt og fjallað verður um í ritgerðinni eru flöggunarreglurnar ekki gallalausar og því hafa komið upp mál þar sem tekist hefur að fela eignarhald í skráðum félögum á markaði. Af þessum sökum hefur farið fram endurskoðun á flöggunarreglunum í nágrannaríkjum okkar og verður fjallað um hana í ritgerðinni.
Annað markmið ritgerðarinnar er að sýna fram á mikilvægi verndarhagsmuna flöggunarreglnanna. Reynt verður að færa fram rök fyrir því að þeir séu það mikilvægir að nauðsynlegt sé að tryggja nægilega þung viðurlög við þeim til að leitast við að koma í veg fyrir brot á flöggunarskyldu. Þannig öðlumst við traust og trú á verðbréfamarkaðinum sem er lykilatriði við að tryggja skilvirkni hans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaútgáfa.pdf | 626.06 kB | Lokaður | Meginmál | ||
FORSIDA.pdf | 30.64 kB | Lokaður | Forsíða |