is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8273

Titill: 
  • Vörubirgðaveð
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Vörubirgðir eru meðal verðmætustu eigna fyrirtækja. Eðli málsins samkvæmt er nauðsynlegt að fyrirtæki geti veðsett slík verðmæti í þeim tilgangi að auka við lausafé sitt og þar með viðhaldið rekstri. Í samræmi við þróun viðskiptalífs hér á landi, þar sem hraði og aukin samkeppni hafa verið einkennandi, hefur það færst í aukana, að fyrirtæki glíma við þann vanda að vörubirgðir og vörulagerar safnast upp. Ástæður þess eru margvíslegar, en það má sem dæmi nefna að yfirleitt er sala fyrirtækja sveiflukennd, og til þess að mæta þeirri eftirspurn sem ríkir á markaðnum hverju sinni, safna oft fyrirtæki birgðum upp til þess að mæta þeirri þörf. Meginmarkmið þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á þær breytingar sem hafa átt sér stað á veðsetningu lausafjárverðmætis í heildarsafni muna og hvernig sú þróun leiddi til heimildar veðsetningar vörubirgða skv. 33. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Með setningu samningsveðlaga þann 1. janúar 1998 rýmkuðu veðsetningarheimildir atvinnugreina til muna frá því sem áður var. Lögin höfðu einnig í för með sér heimild fyrir atvinnufyrirtæki til þess að veðsetja ósundurgreindar vörubirgðir sem sjálfsvörsluveð. Þetta ákvæði er nýmæli og hafði í för með sér að aðgangur fyrirtækja að lánsfé varð auðveldari en áður. Eins og farið verður inn á síðar í ritgerðinni er vörubirgðaveð tiltölulega nýtt hugtak hér landi. Um vörubirgðaveð er að ræða þegar rekstraraðili setur vörubirgðir atvinnurekstrar síns að sjálfsvörsluveði, sbr. 33. gr. svl. Til þess að auðvelda skilning og lestur þessarar ritgerðar, verður byrjað á að fjalla almennt um veðrétt. Í því augnamiði verða helstu réttarreglur og lykilhugtök sem gilda um veðrétt teknar til skoðunar. Því næst verður farið yfir réttarsögu norrænna þjóða um þróun vörubirgðaveðs, og þróunin rakin yfir í íslenskan rétt. Eins og áður segir, er hugtakið vörubirgðaveð nýtt hugtak í íslenskum rétti. Tilvist veðréttar í sinni víðtækustu mynd á Íslandi er þó að finna fyrir tíð Grágásar. Að því loknu verður gerð grein fyrir andlagi vörubirgðaveðs og skilgreiningu hugtaksins, sbr. 33. gr. svl. í almennri umfjöllun um vörubirgðaveð. Því næst verður varpað ljósi á helstu lagareglur sem gilda um heimildir til þess að setja að sjálfsvörsluveði heildarsafn muna. Við skýringu þessara lagareglna verður stuðst við lögskýringargögn og dóma er varða vörubirgðaveð. Að lokinni umfjöllun um andlag vörubirgðaveðs verður fjallað um réttarvernd veðs í vörubirgðum. Til útskýringar á því hvernig slíkt veð öðlast réttarvernd verður dómur Hæstaréttar frá árinu 2009 meðal annars reifaður. Lög nr. 39/1978 um þinglýsingar verða einnig höfð til hliðsjónar. Því næst verður gerð grein fyrir framsalsheimild vörubirgða og heimildum veðþola til þess að framselja vörubirgðir sínar. Til að varpa ljósi á heimildir slíks framsals verða lögskýringargögn meðal annars skoðuð. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er gerð grein fyrir mikilvægi þess að afmarka hver getur verið aðili að samningi um vörubirgðaveð. Í því skyni, verður hugtakið rekstraraðili skv. 25. gr. svl. skýrt til hliðsjónar við 33. gr. svl. Fjallað verður um afmörkun vörubirgðaveðs gagnvart öðrum ákvæðum samningsveðlaga, svo sem sérreglur sem gilda um verktaka, landbúnað og sjávarútveg, sbr. 28.-32. gr. svl. Í framhaldi af þessari umfjöllun verður vörubirgðaveð afmarkað gagnvart söluveði. Með setningu samningsveðlaganna voru í fyrsta sinn á Íslandi lögfestar heildstæðar reglur um söluveð. Eins og farið verður nánar yfir, er söluveð veðréttur í hinu selda, til tryggingar láni sem seljandi eða annar lánveitandi hefur veitt til tiltekinna kaupa. Að lokum verða meðal annars rakin tilvik, er leiða til brottfalls vörubirgðaveðs. Ýmsar ástæður geta leitt til brottfalls kröfu, en algengasta ástæðan er fullnaðargreiðsla hennar. Er það í samræmi við meginreglur kröfuréttar. Í lokaorðum ritgerðarinnar verða helstu niðurstöður dregnar saman og leitast verður meðal annars við að svara þeirri spurningu, hvort skilgreining hugtaksins skv. 33. gr. svl. sé of rúm.

Samþykkt: 
  • 5.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8273


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Vörubirgðaveð.pdf597.99 kBLokaðurHeildartextiPDF