Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8281
Íslenska ríkið er stærsti einstaki vinnuveitandi landsins. Þá starfar að sama skapi mikill fjöldi hjá hinum fjölmörgu sveitarfélögum landsins. Á tímum niðurskurðar í opinberum rekstri er ljóst að nauðsynlegt getur reynst að segja starfsmönnum upp störfum til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri. Á sama hátt getur reynst nauðsynlegt að breyta skipulagi innan stofnana hins opinbera til að ná sömu markmiðum. Hefur raunin enda orðið sú að þó nokkrum fjölda starfsmanna hins opinbera hefur verið sagt upp á þessum grundvelli.
Viðfangsefni þessarar lögfræðilegu ritgerðar er á sviði stjórnsýsluréttar eða nánar tiltekið á sviði opinbers starfsmannaréttar. Er ætlunin að fjalla um uppsagnir opinberra starfsmanna á grundvelli hagræðingar eða skipulagsbreytinga. Við töku slíkra ákvarðana reynir hvað mest á ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins annars vegar og svo ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hins vegar. Af beinum lestri starfsmannalaga má ætla að nokkuð auðvelt sé að segja starfsmönnum upp störfum á grundvelli hagræðingar eða skipulagsbreytinga. Er meginmarkmið ritgerðarinnar hins vegar að fjalla um hvernig hinar ýmsu reglur stjórnsýsluréttarins, skráðar sem óskráðar, koma við sögu þegar starfsmönnum er sagt upp á þessum grundvelli og leiða til þess að stjórnvöld þurfa í raun að gæta að margvíslegum atriðum við töku slíkra ákvarðana.
Efni ritgerðarinnar má í grófum dráttum skipta upp í tvo hluta. Í fyrri hluta ritgerðarinnar verður m.a. rætt um helstu réttarheimildir hins opinbera starfsmannaréttar. Fjallað verður um hinar ýmsu tegundir starfsloka opinberra starfsmanna og í framhaldi af því gerð grein fyrir mikilvægi þess hvaða ástæður liggja að baki uppsögn. Þá verður í fimmta kafla gerð almenn grein fyrir hagræðingu og skipulagsbreytingum hjá hinu opinbera. Í síðari hluta ritgerðarinnar verða teknar fyrir nokkrar af helstu reglum stjórnsýsluréttarins og skoðað hvaða áhrif þær geta haft á töku ákvörðunar um uppsagnir starfsmanna á grundvelli hagræðingar eða skipulagsbreytinga. Er þar um að ræða meginregluna um bann við misbeitingu valds við val á leið til úrlausnar máls, réttmætisregluna, meðalhófsregluna, andmælarétt starfsmanna við þessar aðstæður og rannsóknarregluna. Í upphafi hvers kafla verður stutt og almenn umfjöllun um viðkomandi stjórnsýslureglu og að því loknu tekið til skoðunar hvernig hún birtist við framkvæmd uppsagna opinberra starfsmanna á grundvelli hagræðingar eða skipulagsbreytinga. Verða helstu niðurstöður ritgerðarinnar svo dregnar saman á stutta hátt í lokaorðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Forsíða.pdf | 31.15 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Ritgerðin sjálf.pdf | 945.1 kB | Opinn | Meginmál | Skoða/Opna |