is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8282

Titill: 
 • Skilyrði lögbanns við fullnustu hugverkaréttinda
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerð þessari er fjallað um eitt mikilvægasta réttarúrræðið sem stendur til boða til gæslu hugverkaréttinda, lögbann. Brot gegn hugverkaréttindum geta leitt til ýmis konar réttarlegra viðbragða og fjöldi úrræða standa rétthöfum til boða til réttargæslu. Þar má helst nefna skaðabætur, refsingu og lögbann. Skaðabætur og refsing horfa hinsvegar til þess að bæta tjón eða refsa fyrir afbrot sem þegar er orðið. Lögbann er aftur á móti bráðabirgðagerð, framkvæmd af sýslumanni sem ætlað er að hindra ólögmætar athafnir með skjótum hætti. Eitt af megineinkennum hugverkaréttinda er að í þeim felst lögbundinn einkaréttur sem gerir eigendum eða rétthöfum þeirra kleift að banna öðrum hagnýtingu þeirra. Lögbann er því hentugt fullnustuúrræði vegna brota á hinum lögbundna einkarétti. Mikilvægi lögbanns fyrir hugverkaréttindi má að auki rekja til þess að hinn efnislegi réttur er oft veikburða þegar á hólminn er komið. Í mörgum tilfellum getur einnig verið erfitt að sanna umfang tjóns eða huglæg refsiskilyrði og hagsmunir rétthafa því fyrst og fremst í því fólgnir að stöðva hið meinta brot sem fyrst. Þá getur rekstur hefðbundins dómsmáls tekið langan tíma og þó að refsing eða skaðabætur séu dæmdar veitir það réttindunum oftast nær ekki nægilega vernd. Lögbann er þess vegna jafnan talið vera mikilvægasta úrræðið til fullnustu hugverkaréttinda.
  Um lögbann fer eftir almennum reglum laga um kyrrsetningu, lögbann ofl. nr. 31/1990 (hér eftir skammstafað ksl.) og heyrir því fræðileg umfjöllun um lögbann undir réttarsvið fullnusturéttarfars. Efnistök ritgerðarinnar skarast því á sviðum hugverkaréttar og fullnusturéttarfars. Hefðbundin fræðiskrif og framkvæmd á sviði fullnusturéttarfars geta að mörgu leyti gagnast þegar álitaefni tengd hugverkarétti eru til úrlausnar. Raunveruleg álitaefni eru hinsvegar sjaldan leyst annað hvort á grundvelli réttarfarsreglna eða efnisréttar og hætta er á að mikilvægum spurningum verði ósvarað sé ekki fjallað um álitaefnin í samhengi. Finnski fræðimaðurinn Marcus Norrgård kemst til að mynda svo að orði um samhengi réttarfars og efnisréttar:
  Analyser av materiella rättigheder utan någon som helst antydan om hur den i praktiken skall genomdrivas är »law in books» inte »law in action». Det omvända gäller på motsvarande sätt: en processuell regel utan någon som helst anknytning till det aktuella materiella rättsliga spörsmålet leder till en verklighetsfrämmande rättsvetenskap.
  Ýmislegt styður að fjallað sé ítarlega um lögbann með ofangreindum hætti. Fyrr nefnt mikilvægi lögbanns fyrir fullnustu hugverkaréttinda ber þar hæst. Þá hafa bráðabirgðagerðir lítið verið rannsakaðar í íslenskum rétti. Samspil fullnusturéttarfars, einkamálaréttarfars og hugverkaréttar vekur ýmsar áhugaverðar fræðilegar spurningar sem vert er að leita svara við. Slík umfjöllun kann einnig að hafa hagnýtt gildi með því að gefa yfirlit yfir réttarframkvæmd á þessum sviðum.

Samþykkt: 
 • 5.5.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/8282


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Dadi Olafsson.pdf851.28 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna