Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8289
Algengast er að kröfur eru efndar með greiðslu. Á sviði kröfuréttar er þó viðurkennt að kröfur er hægt að efna með ýmsum öðrum leiðum sem hefur í för með sér með sama hætti og greiðsla að krafa fellur niður. Ein af þessum efndaaðferðum er skuldajöfnuður en í honum felst að tvær kröfur eru látnar mæta hvor á móti annarri án þess að eiginleg greiðsla fari fram. Niðurstaðan verður hin sama og báðar kröfurnar hefðu verið greiddar svo langt sem skuldajöfnuður nær. Skuldajöfnuður getur bæði verið samningsbundinn og þvingaður en í tilviki hins síðarnefnda þurfa ákveðin skilyrði almennt að vera fyrir hendi svo hann nái fram að ganga. Svonefndar samrættar kröfur njóta þó sérstöðu gagnvart þessum skilyrðum og fylgir þeim ríkari skuldajafnaðarréttur. Eðli krafna getur síðan takmarkað skuldajafnaðarheimild eða útilokað hana með öllu. Í íslenskri löggjöf er ekki fyrir að fara almennu ákvæði um skuldajöfnuð en hann hefur verið viðurkenndur um langt skeið. Þó má finna ákvæði á afmörkuðum sviðum, t.d. í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem reglan er í 100. gr. laganna. Viðurkennt er að kröfuhafi njóti víðtækari skuldajafnaðarréttar gagnvart þrotabúi en gegn skuldara persónulega. Þó þurfa tiltekin sérskilyrði að uppfyllt. Á sviði kröfuréttar er heimilt að semja um víðtækari skuldajafnaðarrétt en leiðir af almennum reglum en þó er ólíklegt að slíkir samningar haldi gildi sínu gagnvart ófrávíkjanlegu ákvæði 100. gr. gþl. veiti þau betri rétt, enda stríðir það gegn meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa. Skuldajafnaðarréttur kröfuhafa þrotabús er óháður rétthæð kröfunnar, utan búskrafna og eftirstæðra krafna. 100. gr. gþl. hefur sjálfstæða tilveru gagnvart riftunarreglum laganna og skuldajöfnuði verður því ekki rift á grv. þeirra hafi hann verið heimill skv. fyrrnefnda ákvæðinu. Orðalag sérreglu j-liðar 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki gefur til kynna víðtækari skuldajafnaðarrétt en ákvæðinu var ætlað að veita og sé það túlkað skv. orðanna hljóðan getur það leitt til brots á ofangreindri meginreglu um jafnræði. Ólíklegt verður að teljast að slík túlkun standist, sérstaklega þegar hliðjón er höfð af 25. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2001/24/EB, sem fyrrnefnda ákvæðinu var ætlað að innleiða.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskjal.pdf | 1.03 MB | Lokaður | Meginmál | ||
Forsida.pdf | 87.06 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna |