is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8323

Titill: 
 • Eyðidýrð. Um tengsl náttúru og mannlífs í Heiðaharmi og Sálumessu eftir Gunnar Gunnarsson
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Gunnar Gunnarsson rithöfundur fæddist árið 1889 að Valþjófsstað í Fljótsdal og bjó þar til sjö ára aldurs þegar foreldrar hans fluttu að Ljótsstöðum í Vopnafirði. Hann hóf ungur að fást við ritstörf og flutti tæplega tvítugur að aldri til Danmerkur þar sem hann bjó allt til ársins 1939. Í Danmörku gerðist hann skáld og rithöfundur og varð eitt þekktasta skáld Norðurlandanna á þeim tíma.
  Gunnar skrifaði verk sín á dönsku öll árin sem hann bjó erlendis en í sögusviði flestra þeirra má gjörla þekkja íslenskt landslag og íslenska náttúru, ekki síst átthagana austanlands og norðan. Íslensk öræfi og íslenskar sveitir eru sögusvið allmargra sagna hans, þ.á.m. í þeim tveimur verkum sem liggja til grundvallar þessari ritgerð; Heiðaharmi og Sálumessu.
  Sálumessa er framhald Heiðaharms og Gunnar ætlaði sér að rita þriðja verkið í þessum bókaflokki en af því varð ekki. Sögur þessar gerast á þeim tíma þegar íbúar heiðalanda eru að gefast upp á heiðabúskapnum, flýja undan náttúruöflunum sem engu eira, hvort sem um ræðir eldgos, flóð eða uppblástur. Allt þetta og breytt menning leggjast á eitt að flæma íbúa heiðanna í burtu en önnur aðalpersóna sagnanna, Brandur á Bjargi, má ekki til þess hugsa að Heiðin fari í eyði. Lesendur kynnast íbúum Heiðarinnar, fegurð hennar og „eyðidýrð“ með augum Bjargfastar þegar íbúar Heiðarinnar bjóða henni í heimsókn á alla bæina. Sú ferð er fermingargjöf Bjargfastar og jafnframt nokkurs konar manndómsvígsla. Hún verður fullorðin í ferðinni.
  Sögurnar hverfast ekki hvað síst um það hvernig búskaparhættir breytast og menning og mannlíf með, þéttbýli styrkist og útlönd soga til sín fólk. Jafnframt fjalla þær um fólk á miklum umbreytingatímum, viðhorf þeirra og viðbrögð. En landslag og náttúra leika stórt og mikilvægt hlutverk í sögunni og hafa áhrif á persónurnar og athafnir þeirra, líf og leik. Í þessari ritgerð er þess freistað að draga fram og skoða sérstaklega tengsl náttúru og mannlífs.

Samþykkt: 
 • 9.5.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/8323


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA íslensku ITH9 PDF.pdf416.91 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna