Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8387
Skvísubækur (e. chick lit) eru ung bókmenntagrein sem skaust upp á yfirborðið í kringum miðjan 10. áratug síðustu aldar. Bækurnar sýna sjálfstæðar nútímakonur á raunsæjan hátt en flétta saman húmor og dramatík með skemmtanagildi að markmiði og flokkast þar af leiðandi sem afþreyingarbókmenntir. Meðal annars vegna þessa hafa skvísubækur ekki verið teknar alvarlega sem bókmenntagrein og einnig vegna náinna tengsla þeirra við hefðbundnar ástarsögur, sem ekki hafa heldur notið mikillar virðingar fræðasamfélagsins.
Í þessari ritgerð eru rannsakaðar þrjár skvísubækur frá þremur ólíkum löndum – Bretlandi, Bandaríkjunum og Íslandi. Bækurnar eru Makalaus (2010) eftir Þorbjörgu Marinósdóttur, sem er betur þekkt sem Tobba Marinós, hin breska Draumaveröld kaupalkans (The Secret Dreamworld of a Shopaholic, 2000) eftir Sophie Kinsella, og hin bandaríska Játningar snyrtivörufíkils (Confessions of a Beauty Addict, 2009) eftir Nadine Haobsh. Helstu umfjöllunarefni ritgerðarinnar er hamingjuleit aðalsögupersóna bókanna þriggja og hvernig neyslumenning og hefðbundin kynhlutverk koma þar við sögu.
Aðalpersónur bókanna þriggja hafa allar ákafa löngun til að verða „betri“ en þær eru á einn eða annan hátt og dreymir um „fullkomnun“, þrátt fyrir að yfirlýsingar um hina sjálfstæðu og sjálfsöruggu konu séu áberandi í bókunum. Persónurnar trúa því að hægt sé að öðlast fullkomið líf með því að kaupa og nota „réttar“ vörur og trúa því að þá fylgi hamingjan með sem kaupauki. Í ritgerðinni er varpað ljósi á það hvaðan persónurnar fá leiðbeiningar sínar um það hvernig best sé að ná „fullkomnun“ og þar með öðlast hamingju. Þetta er gert til að svara því hvort skísubækurnar þrjár gagnrýni þær staðalímyndir kvenna sem virðast ríkjandi í heiminum í dag eða hvort þær fylgi hefðum feðraveldisins um hefðbundin kynhlutverk í umfjöllun sinni um hamingjuleit skvísanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð - Ragnhildur Pétursdóttir.pdf | 424.15 kB | Lokaður | Meginmál | ||
BA-ritgerð - forsíða - Ragnhildur Pétursdóttir.pdf | 61.33 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
BA-ritgerð - titilsíða - Ragnhildur Pétursdóttir.pdf | 6.36 kB | Opinn | Titilsíða | Skoða/Opna |