Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8432
Tilgangur þessarar ritgerðar er að greina samskipti Býsansmanna og Væringja, þ.e. norrænna málaliða í þjónustu Miklagarðskeisara út frá hugmyndum beggja hópa um karlmennsku. Tímabilið sem ritgerðin fæst við er 10.-12. öld en ýmsar frumheimildir sem stuðst er við eru frá 13. öld. Stuðst er við bæði býsanskar og norrænar heimildir. Litið verður til Íslendingasagna, konungasagna og dróttkvæða um hugmyndir norrænna manna um karlmennsku og Býsanska ríkið. Sömuleiðis verður litið til býsanskra heimilda á borð við Alexíusarkviðu um hugmyndir Býsansmanna um hvað það sé að vera karlmaður svo og álit þeirra á norrænum mönnum. Verður þetta borið saman til að fá heildarmynd af því hvað var líkt og ólíkt með karlmennskuhugmyndum þessara tveggja menningarheima. Hér verður farið almennt yfir samskiptasögu Væringja og Býsansmanna og litið til þess hvað var talið vera karlmannlegt sem og ókarlmannlegt í samfélögum þeirra. Skoðuð verður staða geldinga í býsönsku samfélagi og það hvernig hún mótaði hugmyndir Býsansmanna um karlmennsku og að sama skapi hvernig hún kann að hafa átt þátt í að móta hugmyndir Væringja um skort Býsansmanna á henni.
Tilgátan sem sett verður fram í þessari ritgerð er tvíþætt. Í fyrsta lagi að norrænir menn hafi notað hugmyndir sínar um karlmennsku sína og bardagagetu til þess að hefja sig upp yfir, eða vera a.m.k. jafnokar Býsansmanna sem stóðu þeim mun framar að auðlegð og glæsileika, þættir sem ég mun sýna fram á að hafi skipt norræna menn mjög miklu máli. Í öðru lagi mun ég halda því fram að þrátt fyrir þetta hafi fordómar norrænna manna gegn Grikkjunum ekki náð sömu hæðum og í Vestur-Evrópu því að sömu pólitísku og trúarlegu hvatir krossferðanna voru ekki til staðar á Norðurlöndum (þótt vissulega hafi þær haft áhrif).
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
H&G. Final version.pdf | 390.07 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |