is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8506

Titill: 
  • Opinberar samkeppnishömlur og kröfur til skýrleika sérlagaákvæða skv. ákvæði b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hið opinbera hefur með margvíslegum hætti áhrif á samkeppni á markaði, ýmist sem þátttakandi eða með löggjöf og framkvæmd hennar. Samkeppnislög nr. 44/2005 eru hin almennu lög sem gilda á sviði samkeppnisréttar á Íslandi. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga er eitt þeirra ákvæða í lögunum sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir opinberar samkeppnishömlur og veitir samkeppnisyfirvöldum heimildir til inngrips í þær að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Á árinu 2008 gekk dómur í Hæstarétti, Hrd. 30. apríl 2008 (411/2007), sem verður að teljast einkar áhugaverður varðandi skýringu og beitingu ákvæðisins í framkvæmd.
    Í ritgerðinni eru opinberar samkeppnishömlur teknar til skoðunar í íslenskum samkeppnisrétti í tengslum við ákvæði b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga og nefndan dóm Hæstaréttar. Ákvæðið gerir ráð fyrir því að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að samkeppnisyfirvöld hafi heimild til að grípa til aðgerða gegn athöfnum hins opinbera samkvæmt því. Í fyrsta lagi þurfa umræddar athafnir að hafa röskun á samkeppni í för með sér og í öðru lagi þarf að vera ljóst að ekki séu til staðar sérstök ákvæði í öðrum réttarheimildum er veiti hinu opinbera heimild eða leggi á það skyldu til athafnanna. Það er hið síðara skilyrði sem umfjöllunarefni ritgerðarinnar snýr að mestu að.
    Í upphafi ritgerðarinnar er fjallað um þróun samkeppnisréttar á Íslandi, með áherslu á afskipti hins opinbera. Þá er ákvæði b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga tekið til skoðunar, fjallað um forsögu þess og gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem það felur í sér. Því næst er gerð grein fyrir gildissviði samkeppnislaga í tengslum við ákvæðið, en gildissvið laganna og síðara skilyrði ákvæðisins fara á vissan hátt saman. Þá er vikið að úrræðum þeim er samkeppnisyfirvöld geta gripið til skv. síðari málsgreinum 16. gr. samkeppnislaga, sé þeim heimilt að grípa til aðgerða skv. ákvæði b-liðar 1. mgr. ákvæðisins. Meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar snýr svo að framkvæmd tengdri síðara skilyrði því er fram kemur í ákvæðinu. Ágreiningur um það hvort sérlög taki til þeirra athafna hins opinbera sem deilt er um hverju sinni er ekki ótíður. Yfirleitt snýr hann að því hvort ákvæði þau sem hið opinbera byggir athafnir sínar á taki til nákvæmlega þeirra athafna, þ.e. hvort ákvæðin feli í sér heimild eða skyldu til þeirra. Þá kemur iðulega upp ágreiningur um hversu skýr heimildin þarf að vera að því leytinu til. Útgangspunkturinn við þá umfjöllun er áður nefndur dómur Hæstaréttar, Hrd. 30. apríl 2008 (411/2007), en hann sneri að skýringu sérlagaákvæðis gagnvart samkeppnislögum. Dómurinn er ítarlega reifaður, ásamt málinu í heild sinni á öllum stjórnsýslustigum samkeppnisyfirvalda. Þá eru greind þau álitaefni sem málið gefur tilefni til með hliðsjón af annarri framkvæmd dómstóla og samkeppnisyfirvalda. Fyrir þá athugun voru öll mál er gengið hafa, bæði á sviði dómstóla og samkeppnisyfirvalda, þar sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 16. gr. skl. kemur sérstaklega fyrir tekin til athugunar, auk fleiri mála sem efninu tengjast.

Samþykkt: 
  • 16.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8506


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
lokagerð.pdf639,23 kBLokaðurMeginmálPDF
Forsíða.pdf30,73 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna