is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8621

Titill: 
 • Siðferðileg álitamál tengd næringu um görn. Réttur sjúklings til að þiggja eða hafna næringu
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Meistararitgerðin fjallar um siðferðileg álitamál tengd næringarmeðferð um görn og hver réttur sjúklings er til að þiggja eða hafna slíkri meðferð. Næring um görn er notuð þegar sjúklingur getur ekki nærst um munn af einhverjum ástæðum. Ef gefa þarf næringu til lengri tíma er gerð aðgerð þar sem næringarslöngu er komið fyrir í maga í gegn um húð með aðstoð speglunartækni. Slík aðgerð kallast á ensku percutaneous endoscopic gastrostomy (PEG aðgerð). Upplýst samþykki þarf fyrir PEG aðgerð og næringu þar sem um læknismeðferð er að ræða sem getur haft fylgikvilla í för með sér og verið byrði fyrir sjúklinginn. Oftast þegar ákveðið er að næra sjúkling með gervinæringu er það gert í læknisfræðilega viðurkenndum tilgangi þar sem næringin viðheldur líkamsstarfsemi sjúklings, bætir lífsgæði hans og lífslíkur. Næringarmeðferð er lífsviðhaldandi meðferð þar sem enginn getur lifað ef hann getur ekki nærst. Af reynslu höfundar sem meltingarlæknis hafa komið upp tilfelli þar sem honum hefur þótt ábending aðgerðarinnar og þá meðferðarinnar vafasöm út frá læknisfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum. Í sumum þessara tilvika hefur sjúklingurinn greinilega ekki verið hæfur til að taka ákvörðun um slíka meðferð sem vekur upp spurningu um rétt sjúklings til að hafna eða þiggja næringarmeðferð.
  Tilgangur og markmið verkefnisins var að kanna hvort fjallað hefur verið um álitamál varðandi PEG aðgerð til næringar um görn, skilgreina vandamálin, finna tíðni slíkra vandamála hérlendis og meta þau gagnrýnið út frá siðareglum og aðstæðum sjúklinganna.
  Samkvæmt erlendum rannsóknum eru siðferðileg álitamál tengd gervinæringu og vökvun algeng og oft erfið málefni frá siðfræðilegum sjónarhóli. Oftast er um að ræða sjúklinga með endastigs sjúkdóma, svo sem krabbamein eða heilabilun og sjúklinga sem fengið hafa heilaskaða og lent í varanlegu skynlausu ástandi. Í þessum sjúklingahópum getur næringarmeðferðin, og þá um leið PEG aðgerðin, verið gagnslaus læknismeðferð í þeim skilningi að hún þjónar ekki eiginlegum markmiðum meðferðar sem er að minnka byrði, bæta lífsgæði og lina þjáningar.
  Í rannsókn minni sem náði yfir allar PEG aðgerðir sem gerðar voru á Íslandi á 10 ára tímabili fundust átta tilfelli sem ég mat sem siðferðileg álitamál. Sjö tilfelli vörðuðu það að hefja næringu hjá sjúklingum með endastigs sjúkdóma og eitt að hætta næringu hjá sjúklingi í varanlegu skynlausu ástandi. Ég rökstuddi það með siðfræðilegri nálgun að næringarmeðferð var ekki viðeigandi í þessum tilfellum. Í sumum tilfellanna var sjálfræði sjúklings ekki virt. Eins bendir rannsóknin til að næringarmeðferð er í sumum tilfella hafin vegna vanþekkingar meðferðaraðila á siðferðilegum þáttum hér að lútandi og einnig er mögulegt að sjúklingur og/eða aðstandendur fái ekki nægilegar upplýsingar um ávinning, áhættur og byrði PEG aðgerðar og næringarmeðferðar.
  Til að fækka siðferðilegum álitamálum og standa vörð um hagsmuni sjúklinga þarf að skoða og meta hvert tilfelli þar sem óskað er eftir PEG aðgerð til næringar hjá og hefja þverfaglegar umræður um þau tilfelli sem teljast til siðfræðilegra álitamála. Í lokakafla ritgerðarinnar set ég upp töflur og leiðbeiningar um þá þætti sem hafa þarf í huga þegar siðferðileg vandamál koma upp hvað þetta varðar.

Samþykkt: 
 • 20.5.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/8621


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð SB.pdf641.27 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna