is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8635

Titill: 
  • Próffræðilegir eiginleikar BADS: Áhrif hreyfingar á þunglyndi og kvíða
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Á síðustu árum hefur áhugi beinst í auknum mæli að áhrifum athafnasemismeðferðar við þunglyndi en sú meðferð felst í að auka almenna virkni og að brjóta upp neikvætt hegðunarmunstur. Tilgangur rannsóknarinnar var að safna próffræðilegum upplýsingum um íslenska þýðingu spurningalistans Athafnasemi í þunglyndi (Behavioral activation in depression, BADS) en þeim lista er ætlað að mæla breytingar í þeim þáttum sem athafnasemismeðferð beinist að. Próffræðilegir eiginleikar listans voru kannaðir í úrtaki 228 nemenda Háskóla Íslands auk þess sem tengsl BADS listans við aðrar hugsmíðar voru könnuð. Næmi listans fyrir breytingum í kjölfar inngrips sem eykur hreyfingu fólks, var kannað í úrtaki 54 þátttakenda í þremur líkamsræktarnámskeiðum í líkamsræktarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Í samræmi við niðurstöður rannsókna á áhrifum reglulegrar líkamsþjálfunar og hreyfingar á kvíða- og þunglyndiseinkenni, var gert ráð fyrir að þátttaka í líkamsræktarnámskeiðum myndi draga úr einkennum þunglyndis og kvíða. Einnig var gert ráð fyrir að skor á BADS spurningalistanum myndu hækka í kjölfar þátttöku í námskeiðunum. Niðurstöður þátttagreiningar BADS listans í úrtaki háskólanema, voru að mestu leyti í samræmi við upprunalegu útgáfu kvarðans og bentu til að fjórir þættir lýsi þáttabyggingu hans best. Niðurstöður studdu einnig hugtakaréttmæti listans þar sem heildarskor BADS og undirþættir höfðu m.a. sterka fylgni við spurningalista sem meta reynsluforðun, endurteknar neikvæðar hugsanir og lífsánægju í þá átt sem búist var við. Niðurstöður í úrtaki þátttakenda í líkamsræktarnámskeiðum sýndu að það dró úr kvíða- þunglyndis- og streitueinkennum og lífsánægja jókst þegar upphafsmælingar voru bornar saman við mælingar fjórum vikum seinna. Skor á BADS spurningalistanum höfðu einnig hækkað sem bendir til að BADS listinn kunni að vera næmur fyrir breytingum í hreyfingu og virkni fólks. Almennt benda þessar niðurstöður fyrstu rannsóknar á BADS listanum í íslenskri gerð til þess að próffræðilegir eiginleikar hans séu ágætir en þörf er á að endurskoða þýðingu einstakra atriða listans og kanna frekar eiginleika listans í stærri og fjölbreyttari úrtökum.

Samþykkt: 
  • 20.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8635


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-ritgerð.pdf505.91 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna