Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8650
Markmið rannsóknarinnar var í fyrsta lagi að athuga hvort hugnæmi væri meira hjá þeim sem höfðu sögu af þunglyndi samanborið við þá sem hafa ekki sögu af þunglyndi, metið með tveimur aðferðum til að mæla hugnæmi. Sú fyrri byggir á því að skapa dapurt ástand með tónlist og innlifun og meta viðhorf fyrir og eftir inngripið með Dysfunctional Attitude Scale (DAS) en sú seinni byggir á sjálfsmatsspurningalista (LEIDS). Í öðru lagi var markmiðið að athuga hvort aukið hugnæmi fyrir depurð tengist auknu tilfinninganæmi sem var mælt með Emotion Reactivity Scale (ERS), auknu tilfinningahæði mælt með Spurningalista um Tilfinningar (SUMT) og verri tilfinningastjórn sem var mæld með Emotion Regulation Questionnaire (ERQ). Það getur haft hagnýtt gildi að finna þætti sem tengjast hugnæmi þar sem hugnæmi hefur gefið góða forspá um bakslag í þunglyndi og gæti því verið mikilvægur þáttur til að beina meðferð að. Þátttakendur voru 24 háskólastúdentar á aldrinum 20-29 ára, þar af voru 15 kvenkyns og 9 karlkyns. Sjálfsmatsspurningalistinn Major Depression Questionnaire (MDQ) var notaður til að meta núverandi þunglyndis einkenni og fyrri sögu um þunglyndi. Beck Depression Inventory (BDI-II) var notaður til að meta dýpt geðlægðar. Þótt tónlistarinngrip virtist hafa marktæk áhrif á líðan þátttakenda þá hafði það ekki marktæk áhrif á viðhorf þátttakenda sem höfðu mögulega verið þunglyndir áður eins og gert var ráð fyrir. Ekki reyndist vera marktækur munur á heildarskorum þátttakenda sem höfðu mögulega verið þunglyndir áður og þeirra sem höfðu ekki verið það á LEIDS lista eða spurningalistum um tilfinningastjórn, tilfinninganæmi og tilfinningahæði. Niðurstöður rannsóknarinnar eru því ekki í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna á hugnæmi fyrir depurð og benda heldur ekki til að tilfinninganæmi og tilfinningastjórn tengist hugnæmi. Úrtak rannsóknarinnar var þó lítið og því þörf á frekari rannsóknum í stærra úrtaki.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð_Hugnæmi_sigrúnÞóra2 copy 2.pdf | 569.48 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |