Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8706
Hugmyndafræði bráðahjúkrunar vísar til gilda, viðhorfa og skoðana hjúkrunarfræðinga á bráðasviði. Tilgangur verkefnisins var að skoða hvað bráðahjúkrun er og hugmyndafræði bráðahjúkrunar. Bráðahjúkrun var fyrst skilgreind sem sérgrein hjúkrunar þegar Anita Dorr og Judy Kelleher stofnuðu Emergency Department Nurses Association í Bandaríkjunum árið 1970. Fjölmargir kenningahöfundar í hjúkrun hafa haft áhrif með beinum og óbeinum hætti á hugmyndafræði og þróun bráðahjúkrunar. Heimildir voru fundnar með rafrænni leit á gagnagrunnum Web of Science, ScienceDirect og PubMed auk heimilda af heilbrigðisvísindabókasafni á Landspítala. Helstu hugtök heimildaleitar voru: Hugmyndafræði, þekking, reynsla, ábyrgð, siðferði, tæknileg færni og umhyggja tengd bráðahjúkrun. Hugtökin voru síðan skoðuð út frá kenningum þekktra fræðimanna í hjúkrun, það er, Florence Nightingale, Virginiu Henderson, Patriciu Benner og Jean Watson.
Niðurstöður verkefnisins sýna að hugmyndafræði bráðahjúkrunar snýst meðal annars um þekkingu á mati, eftirliti, greiningu og að veita bráð- og alvarlega veikum/slösuðum sjúklingum viðeigandi meðferð. Með árvekni og stöðugu eftirliti með sjúklingum reyna bráðahjúkrunar-fræðingar að sjá fyrir útkomu sjúklinga og um leið fyrirbyggja að ástand þeirra versni. Tæknileg færni og fagleg umhyggja eru mikilvægir eiginleikar í bráðahjúkrun sem geta skipt sköpum í meðferð bráð- og alvarlega veikra/slasaðra sjúklinga og verður bráðahjúkrunarfræðingur að gæta jafnvægis þar á milli. Eins eru fyrirbygging og forvarnir mikilvæg hugtök í hugmyndafræði bráðahjúkrunar og spila stórt hlutverk í störfum bráða-hjúkrunarfræðinga.
Mikil ábyrgð hvílir á bráðahjúkrunarfræðingum, oft í aðstæðum sem einkennast gjarnan af hraða og álagi. Miklar kröfur eru gerðar til bráðahjúkrunarfræðinga við úrlausn flókinna viðfangsefna, þeir þurfa því að búa yfir þekkingu til að nýta tæknilega færni í bland við faglega umhyggju þegar þeir hjúkra bráð- og alvarlega veikum/slösuðum sjúklingum.
Lykilorð: bráðahjúkrun, hugmyndafræði, þekking, ábyrgð, færni, umhyggja
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hugmyndafræði bráðahjúkrunar - fræðileg samantekt.pdf | 322.61 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |