Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8795
Könnuð voru áhrif af dvöl nemenda með alvarlegan hegðunarvanda í sérskóla, þar sem m.a. var notuð ART-þjálfun (Aggression Replacement Training) til að þjálfa reiðistjórnun þeirra, félagsfærni og siðferðisvitund. Einnig var leitast við að athuga skoðun nemenda af ART-þjálfun og dvöl þeirra í sérskóla. Rannsóknin fól bæði í sér megindlega og eigindlega aðferðafræði. Þátttakendur voru tíu nemendur með langa sögu um það alvarlegan hegðunarvanda að skólastjórnendur heimaskóla þeirra höfðu vísað þeim í sérskóla. Átta þátttakendanna höfðu verið greindir með ADHD, sex þeirra með mótþróaþrjóskuröskun og sex sýndu einkenni um depurð og/eða kvíða. Gagnaöflun hófst áður en ART-þjálfun fór af stað. Sex umsjónarkennarar sérskólans voru fengnir til að meta félagsfærni nemenda sinna með matslistum um félagsfærni í ólíkum aðstæðum. Nemendur voru beðnir um að meta hvað þeir myndu gera í reiðivekjandi aðstæðum og að útlista hvað feldist í tíu tilteknum félagsfærniþáttum. Eftir fjögurra mánaða dvöl í sérskólanum og að loknu 10 vikna ART-þjálfun var matið endurtekið og nemendur auk þess spurðir um upplifun sína af ART-þjálfuninni og dvöl sinni í sérskólanum. Helstu niðurstöður voru að skipulagshæfni nemenda jókst að mati umsjónarkennara. Eftir ART-þjálfunina áttu nemendur auðveldara með að tilgreina ákveðna félagsfærniþætti og vissu um fleiri leiðir til þess að bregðast við reiði. Að öðru leyti kom ekki fram munur á félagsfærni, reiðistjórnun eða siðferðisvitund. Meirihluta nemenda fannst ART-þjálfunin hafa hjálpað sér og nefndu margir aukna færni í reiðistjórnun. Svör nemenda bentu til þess að þeir upplifðu ART-þjálfunina sem eitthvað jákvætt. Meirihluti nemenda sagðist líða illa í skólanum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
GUDRUN VALA_LOKAVERKEFNI.pdf | 1,44 MB | Lokaður | Heildartexti |