is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8809

Titill: 
  • „Vopnlaus þjóð." Vopnaburður Íslendinga og landvarnarhugmyndir á tímum sjálfstæðisbaráttu á 19. og 20. öld
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð er lýst í stuttu máli því sem vitað er um landvarnir og vopnaburð Íslendinga frá miðöldum og fram á 19. öld. Meðal annars er hugað að því hvort Íslendingar hafi á
    einhverju skeiði aðhyllst vopnleysi fyrir 1918 og hvaða afleiðingar hernaðarátök höfðu fyrir þjóðina. Þá eru sérstaklega kannaðar hugmyndir 19. aldar manna um landvarnir og vopnaburð og viðhorf þeirra til stöðu Íslands í alþjóða- og landvarnamálum.
    Að lokum er því lýst hvernig fyrri heimsstyrjöldin 1914-1918 skerpti enn á umræðum um varnarmál og hvernig alþingismenn tókust á um landvarnir í tengslum við sambandslagasamninginn, sem gaf Íslandi fullveldi 1918. Kannað var hvaða hugmyndir þeir höfðu um varnir landsins og af hverju ævarandi hlutleysi varð fyrir valinu í það skipti. Íslendingar virðast hafa verið allvel vopnum búnir allt frá landnámi og til loka 16. aldar. Íslendingar sýndu ekki aðeins viðleitni til að verja aðeins eigið land og tilhneigingu til að berjast innbyrðis heldur tóku þeir einnig þátt í hernaði konunga sinna erlendis.
    Eftir siðaskipti um miðja 16. öld stóðu umboðsmenn Danakonungs líklega fyrir upptöku og eyðileggingu vopna Íslendinga, til að bægja frá hættu af uppreisnum innanlands.
    Í Napóleonsstríðunum veiktist mjög hernaðarmáttur danska ríkisins og Ísland varð greinilega hluti af áhrifasvæði breska heimsveldisins. Bretar viðurkenndu Ísland sem sérstakan hluta Danmerkur, sem væri hlutlaus gagnvart þeim í stríði. Staða landsins á bresku áhrifasvæði tryggði því jafnframt vörn gegn innrásum annarra ríkja. Þegar leið á 19. öld efldust mjög þjóðræknisviðhorf Íslendinga og jafnframt áhugi á því að treysta varnir landsins. Jón Sigurðsson reið á vaðið með þau viðhorf að vopnaburður væri senn mannbætandi og þjóðaröryggi til góða. Skotfélögum var komið á fót stuttu síðar og að auki starfaði íslensk hersveit í Vestmannaeyjum um nokkurt skeið.
    Við lok 19. aldar komu fram í Danmörku þau viðhorf jafnaðarmanna að Danir gætu ekki varið sjálfa sig og þeir ættu að leggja niður allar landvarnir. Á Íslandi efldust ekki ósvipuð viðhorf, enda virðast menn hafa talið að þeir gætu treyst Bretum til að verja landið fyrir óvinum Bretaveldis. Sú skoðun varð útbreidd að Danir gætu ekki varið Ísland og þjóðin yrði að leita annað til þess að tryggja öryggi sitt, einkum til Bretlands.
    Danir og Íslendingar sömdu loks um samband sitt sumarið 1918 og féllust Danir þá loks á að viðurkenna fullveldi Íslands. Í samningnum var kveðið á um að Íslendingar yrðu ævarandi hlutlaus þjóð og þeir hefðu engan gunnfána. Eftir að samningurinn tók gildi 1. desember 1918, var Íslandi því ekki lengur ógnað af stríðsþáttöku Dana. Þrátt fyrir skýr ákvæði um ævarandi hlutleysi var samningurinn ekki skuldbindandi fyrir Íslendinga um að fylgja þeirri stefnu til allrar framtíðar. Ísland gat bæði tekið þátt í stríði að vild og tekið upp gunnfána. Þar að auki afvopnuðust Íslendingar ekki, heldur juku þeir frekar á vopnabúnað sinn eftir því sem á öldina leið bæði með því að koma upp landhelgisgæslu og búa Reykjavíkurlögregluna skotvopnum.
    Efnisorð: Ísland, vopnaburður, hernaður, landvarnir, öryggismál, skotfélög, Jón Sigurðsson, sjálfstæðisbaráttan, Uppkastið, Sambandslagasamningurinn, Fyrri heimsstyrjöldin, fullveldi, hlutleysi

Samþykkt: 
  • 30.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8809


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
PeturGI_BAritgerd.pdf760.59 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna