is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8847

Titill: 
 • Lengi getur gott batnað : reynsla af notkun gæðahandbóka í leik- og framhaldsskóla.
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Í þessu verkefni var sjónum beint að reynslu leik- og framhaldsskóla af innleiðingu og notkun gæðahandbóka í skólunum. Skólar hafa verið að innleiða gæðastjórnunarkerfi, m.a. til að mæta utanaðkomandi kröfum sem gerðar eru til skólanna. Gæðastjórnun er ákveðið stjórnskipulag sem felst í því að byggja upp brag eða menningu sem felur í sér ákveðið verklag. Stofnanabragur getur verið mjög mismunandi en öll stjórnun á að miða að því að bragurinn verði framsækinn, þjónustumiðaður, jákvæður, samheldinn og að vinnubrögð stuðli að betra starfi. Rannsóknin var gerð í tveimur skólum, þ.e. leikskóla og framhaldsskóla sem hafa innleitt gæðahandbækur fyrir starfsemi sinna skóla. Reynt var að komast að því hver reynsla þeirra væri af notkun gæðahandbóka, hver aðdragandinn að innleiðslu gæðahandbókanna var og hvernig innleiðslan fór fram.
  Spurningarnar sem lágu til grundvallar rannsókninni voru eftirfarandi: Hver er reynsla viðkomandi leik- og framhaldsskóla af notkun gæða-handbóka? Hver var aðdragandi þess að gæðahandbækur voru innleiddar í viðkomandi skólum? Hvaða verklag var notað við gerð gæðahand-bókanna? Hverjar voru helstu hindranirnar við innleiðslu gæðahand-bókanna? Hvernig nýtast gæðahandbækurnar í skólunum? Hverjir nota gæðahandbækurnar? Hverjir eru kostir og gallar gæðahandbókanna?
  Gagna var aflað með eigindlegum rannsóknaraðferðum. Tekin voru viðtöl við stjórnendur skólanna, ásamt aðstoðarskólastjóra, gæðastjóra og kennara í öðrum skólanum. Í hinum skólanum var tekið viðtal við aðstoðarskólastjóra sem einnig starfar sem deildarstjóri.
  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að reynslan af notkuninni í skólunum var nokkuð lík. Aðdragandinn að innleiðslunni í framhalds-skólann var vegna utanaðkomandi þrýstings og hafði skólinn aðeins einn vetur til að innleiða gæðahandbókina. Í framhaldsskólanum var ráðinn starfsmaður í hálft starf til að innleiða gæðahandbókina. Það gekk erfiðlega í byrjun að fá kennara til að gera verklagsreglur um þau störf sem reglurnar tóku til. Þeir sem rætt var við voru sammála um að þeir myndu ekki vilja sleppa gæðahandbókinni og að skólinn hafi stigið mörg skref fram á við með innleiðslu hennar. Þeir voru einnig sammála um að trúlega hefði verið betra að hafa lengri tíma til að innleiða gæða-handbókina.
  Í leikskólanum var aðdragandinn sprottinn af einskærum áhuga leik-skólastjórans á gæðastjórnun, en hún hafði orðið vitni að gæðakerfi og gæðahandbók sem virkaði mjög vel í hefðbundnu fyrirtæki. Innleiðslan í leikskólanum gekk mjög vel fyrir sig. Allir starfsmenn tóku þátt í því að útbúa verklýsingar á þeim störfum sem þeir voru að vinna samkvæmt leiðbeiningum skólastjóra. Þeir sem rætt var við voru sammála um að þeir myndu ekki vilja vera án gæðahandbókarinnar, hún auðveldaði þeim mjög öll störf, ekki síst þegar nýtt starfsfólk kæmi til starfa.

Samþykkt: 
 • 31.5.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/8847


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lengi getur gott batnað. Reynsla af notkun gæðahandbóka í leik- og framhaldsskóla..pdf696.87 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna