Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8864
Hér er fjallað um konungsvaldið í íslenskum málum á heimastjórnartíma (1904–1918) og tíma íslenska konungsríkisins – í raun aðeins til 1940 því að ríkisstjóri gegndi hlutverki konungs á allt annan hátt en hann sjálfur.
Stjórnarmyndanir á Íslandi, þ.e. val á ráðherra til l917 og forsætisráðherra eftir það, lutu jafnan lögum þingræðisins en komu til kasta konungs með ólíku móti. Í fyrstu kom hann að þeim á ábyrgð dönsku ríkisstjórnarinnar. Frá 1909 átti Alþingi bein samskipti við konung. Þegar fleiri en eitt ráðherraefni gátu varist vantrausti á þingi – 1911 og aftur 1915 – varð það hlutverk konungs að velja á milli. Frá 1918 var aðkoma konungs að stjórnarmyndunum óregluleg en mjög takmörkuð. Hann veitti umboð til stjórnarmyndunar eftir ábendingum, venjulega ekki fyrr en samningum flokkanna var lokið. Hann skipti sér aldrei af samningaferli flokkanna og þurfti aldrei að velja á milli keppinauta um að reyna stjórnarmyndun.
Synjunarvald konungs í íslenskum málum var ekki allt af einum toga.
Gagnvart lögum, sem Alþingi hafði samþykkt, var það á valdi ráðherra hvort hann lagði þau fyrir konung til staðfestingar. Til 1904 hafði Íslandsráðherra dönsku stjórnarinnar talið sér það óskylt og stundum, ekki alltaf, rökstutt synjun sína með konungsúrskurði. Eftir tilkomu þingræðis var ráðherrum ekki stætt á að beita þessu valdi, þótt formlega væri það ekki af þeim tekið fyrr en 1944.
Á heimastjórnartíma voru helstu mál íslensk lögð fyrir konung í ríkisráði Dana til þess að hann gæti, á ábyrgð danskra ráðherra og að frumkvæði þeirra, stöðvað framgang mála sem Danir töldu ganga á sinn rétt. Formlega var þessu valdi beitt 1914 gegn stjórnarskrárbreytingum og úrskurði um íslenskan innanlandsfána. Annars forðuðust ráðherrar að bera upp mál sem yrði synjað; á það reyndi nokkrum sinnum, kannski oftar en skýrar heimildir eru um. Þetta vald misstu Danir með sambandslögunum 1918.
Persónulegt synjunarvald konungs (þ.e. vald hans til að undirrita ekki það sem ráðherra fer fram á, jafnt lög sem annað) var að formi til var ótakmarkað, jafnt í íslenskum málum sem dönskum. Á heimastjórnartíma gerði konungur sig tvisvar líklegan til að beita slíku valdi. Árið 1912 var konungi nauðugt að staðfesta úrskurð um íslenskan fána sem ráðherra Íslands bar fram í samkomulagi við dönsku stjórnina; þá lét hann undan úr því að enginn danskur þingflokkur studdi hann í andstöðunni. Árið 1910 snerist konungur gegn tillögu íslenska ráðherrans um að breyta samkomutíma Alþingis gegn vilja meirihluta þingmanna. Ráðherra lét þá undan án þess að á formlega synjun reyndi, en þarna virðist konungur hafa tekið afstöðu í íslensku deilumáli án þess að danska stjórnin kæmi við sögu. Sem pólitískur möguleiki var synjun af þessu tagi alveg úr sögunni þegar leið á tímabilið, eins og skýrt kom fram í deilunum um þingrofið 1931.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
a.2006.2.1.3.pdf | 351.06 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |