is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Þverfræðilegt nám > Lýðheilsuvísindi >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8901

Titill: 
 • Verkfall grunnskólakennara árið 2004, breytingar á skólastarfsemi og komur á Læknavaktina
 • Titill er á ensku Teachers strike in autumn 2004. Changes in school activities and visits to Læknavaktin (Primary health care services)
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Heimsfaraldrar inflúensu sem ganga yfir tvisvar til þrisvar á hverri öld eru mismunandi en geta verið mjög skæðir með háu dánarhlutfalli meðal ungs fólks eins og sást í spænsku veikinni 1918. Viðbragðsáætlanir gegn heimsfaraldri inflúensu miða að því að draga úr útbreiðslu faraldurs og milda afleiðingar hans. Bólusetning er áhrifarík leið til að draga úr faraldri en það tekur a.m.k. fjóra mánuði frá því að ný veira greinist þar til bóluefni er komið á markað. Aðrar aðgerðir til að draga úr faraldri eru samfélagsaðgerðir sem miða m.a. að því að auka fjarlægð milli einstaklinga til að hefta útbreiðslu smits. Ein þessara aðgerða er lokun skóla. Talið er að langtíma lokun skóla geti valdið mikilli röskun í samfélaginu og því er mikilvægt að ákvörðunin um að loka skólum sé byggð á gögnum sem styrkja gildi aðgerðarinnar.
  Árið 2004 fóru grunnskólakennarar á Íslandi í verkfall í sjö vikur og var flestöllum grunnskólum lokað á tímabilinu. Markmið þessarar rannsóknar var að meta hvort breyting varð á fjölda koma grunnskólabarna og annara aldurshópa á Læknavaktina á höfuðborgarsvæðinu þegar breyting varð á starfsemi grunnskóla (opið/lokað). Komur á Læknavaktina á rannsóknartímabilinu voru skoðaðar yfir 14 vikna tímabil á árunum 2004 – 2007. Skoðun á sjúkdómsgreiningum á Læknavaktinni á árunum 2008 og 2009 leiddi í ljós að yfir 50% koma hjá börnum og unglingum á stöðina voru vegna smitsjúkdóma sem að stærstum hluta voru öndunarfærasýkingar. Í rannsókninni er því gert ráð fyrir að komur á Læknavaktina endurspegli nýgengi smitsjúkdóma og öndunarfærasýkinga hjá börnum og unglingum.
  Við úrvinnslu gagna var reiknuð hlutfallsleg áhætta og 95% vikmörk fyrir fjölda koma á Læknavaktina milli sumarfrísvikna og vikna eftir að skólastarf hófst og síðan milli verkfallsvikna og vikna með fullri skólastarfsemi árið 2004. Sömu útreikningar voru gerðir á samsvarandi vikum fyrir árin 2005, 2006 og 2007 til samanburðar. Verkfallsvikur árið 2004 voru síðan bornar saman við samsvarandi vikur næstu þrjú ár. Þessir útreikningar voru gerðir fyrir mismunandi aldurshópa.
  Niðurstöður sýndu að komum grunnskólanema á Læknavaktina fækkaði þegar skólar lokuðu vegna kennaraverkfalls sem bendir til að það dragi úr smitsjúkdómum og öndunarfærasýkingum hjá nemendunum. Fækkunin var meiri í aldurshópnum 10 – 15 ára en í aldurshópnum 6 – 9 ára. Mörg börn í yngri aldurshópnum höfðu aðgang að frístundaheimilum á verkfallstímanum. Niðurstöðurnar gáfu ekki sterkar vísbendingar um að lokanir skóla dragi úr þessum sjúkdómum hjá öðrum aldurshópum en grunnskólabörnum.

Samþykkt: 
 • 1.6.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/8901


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Verkfall grunnskólakennara 2.PDF3.25 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna