Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8903
Markmið mitt með ritgerðinni er að safna hugmyndum um hvernig leikskólakennarar geta nýtt tækifæri í daglegu lífi, leik barna og umhverfi þeirra til að hjálpa þeim að efla stærðfræðiskilning sinn. Kynntar eru ólíkar leiðir til að auðga leik og námsumhverfi leikskólans og stuðla að stærðfræðinámi barna án þess að um beina stærðfræðikennslu sé að ræða.
Verkefnið skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn er fræðileg greinargerð þar sem fjallað er um áherslur í aðalnámskrá leikskóla á leik og nám barna, stærðfræðinám í leikskóla, hlutverk leikskólakennara og þátt umhverfisins. Seinni hlutinn er hugmyndabanki þar sem ég hef safnað saman hugmyndum að stærðfræðileikjum sem tengja stærðfræði við daglegt líf, leik og starf leikskólans.
Stærðfræðinám leikskólabarna ætti að einkennast af námi í gegnum leik sem er aðalnámsleið barna. Hlutverk leikskólakennarans er að skipuleggja umhverfi sem býður upp á fjölbreytt viðfangsefni og veitir börnunum tækifæri á að takast á við stærðfræði. Í aðalnámskrá leikskóla hefur stærðfræðinni verið fléttað inn í námssviðin í formi hugtaka og athafna sem tengjast daglegu lífi. Stærðfræðileikir hugmyndabankans eru tengdir við námssvið leikskóla samkvæmt drögum að aðalnámskrá leikskóla 2010 en þau eru fjögur talsins; tjáning og samskipti, menning og listir, hreyfing og vellíðan og umhverfi og vísindi.
Með því að auðga umhverfi leikskólans, daglegt líf barnanna og örva frjálsan leik þeirra gefum við þeim tækifæri til að auka skilning sinn á stærðfræði og skapa sér jákvætt viðhorf til hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
M.Ed. Guðrún María Sæmundsdóttir.pdf | 4.3 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |