Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8920
Því er stundum haldið fram að skattabreytingar síðustu sextán ára hafi aukið ójöfnuð á Íslandi, ekki síst lágur fjármagnstekjuskattur. En það er misskilningur að fjármagnstekjuskattur sé 10% og tekjuskattur á atvinnutekjur 36%. Fjármagnstekjuskattur er 26,2% á eigendur fyrirtækja, auk þess sem þeir verða að reikna sér endurgjald og greiða af því tekjuskatt. Fjármagnstekjuskattur er rösk 36% á þá sem njóta vaxta- eða húsaleigutekna. Söluhagnaður af eignum er ekki reglulegar eða eiginlegar tekjur og ætti ekki að vera skattskyldur. Tekjuskattur á atvinnutekjur er vegna skattleysismarka breytilegur eftir tekjum, árið 2007 0% upp að 90 þús. kr. mánaðarlaunum, 18% þegar mánaðarlaunin eru 180 þús. kr. og hækkar síðan með tekjum, en nær aldrei alveg 36%. Eini hópurinn sem greiðir hærra hlutfall af tekjum sínum en eigendur fyrirtækja eru þeir sem hafa hærri laun en nemur meðaltali. Það er líka rangt að tekjuskipting á Íslandi sé ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Hún er tiltölulega jöfn samkvæmt alþjóðlegum mælingum.
Ýmis rök eru gegn stighækkandi tekjuskatti, sem sumir vilja taka upp. Hann flækir í fyrsta lagi skattlagningu. Önnur rök eru að hann eykur ábyrgðarleysi, þegar einn hópur getur velt þungum byrðum á annan með afli atkvæða. Hin þriðju eru að við hann dregur úr verðmætasköpun. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku, eins og samanburður Sviss og Svíþjóðar sýnir og einnig reynsla síðustu ára á Íslandi. Þótt
skattar hafi verið lækkaðir jafnt á fyrirtæki og einstaklinga, hafa skatttekjur ríkisins stóraukist. Leiða má rök að því að með frjálsara og opnara atvinnulífi hafi jöfnuður frekar aukist en minnkað á Íslandi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
a.2007.3.2.5.pdf | 199.66 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |