Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/8944
Athygliskekkjuþjálfun (attention bias modification-ABM) er nýtt meðferðarúrræði við kvíðaröskunum, byggt á grunni hugrænna líkana af kvíðaröskunum og rannsókna á athygliskekkjum í kvíða. Þetta meðferðarúrræði miðar að því að breyta ferlum í athygli þeirra sem þjást af kvíða með hjálp tölvu og fer þessi þjálfun í raun fram ómeðvitað, án meðvitaðrar áreynslu (implicit). Rannsóknir hafa sýnt að athygliskekkjuþjálfun geti dregið úr einkennum félagsfælni en ekki hefur áður verið rannsakað hvort að hún geti bætt árangur af hugrænni atferlismeðferð í hópi við félagsfælni. Markmið þessarar rannsóknar var að sýna hvaða áhrif athygliskekkjuþjálfun með dot-probe verkefni hefur á einkenni félagsfælni og athygliskekkju í átt að ógnandi áreitum umfram hefðbundna hugræna atferlismeðferð í hópi. Jákvæð styrking er það þegar atburður eða áreiti fylgir hegðun og eykur líkur á hegðuninni. Rannsóknir hafa sýnt að jákvæð styrking getur haft áhrif á ómeðvituð athygliferli og því var það einnig markmið þessarar rannsóknar að sýna hvaða áhrif jákvæð styrking hefur á áhrif athygliskekkjuþjálfunar. Tilgátur rannsóknarinnar voru að athygliskekkjuþjálfun minnki einkenni félagsfælni og athygliskekkju í átt að ógnandi áreitum meira en hugræn atferlismeðferð í hópi og að athygliskekkjuþjálfun með jákvæðri styrkingu hafi meiri áhrif en athygliskekkjuþjálfun án jákvæðrar styrkingar. Einnig var sett fram sú tilgáta að athygliskekkjuþjálfun hefði meiri áhrif á athygliskekkju og félagsfælnieinkenni einstaklinga með slaka meðvitaða athyglistjórn. Niðurstöðurnar sýna að athygliskekkja þátttakenda sem fengu athygliskekkjuþjálfun minnkaði meira en athygliskekkja þátttakenda sem ekki fengu athygliskekkjuþjálfun og gefa þær vísbendingu um að athygliskekkjuþjálfun geti haft meiri áhrif á einkenni frammistöðukvíða hjá einstaklingum með slaka meðvitaða athyglistjórn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Olafia_CPritgerd.pdf | 1.02 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |