Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9024
Við uppbyggingu íslensku stjórnsýslunnar komst í tísku á síðasta áratug tuttugustu aldar að færa úrskurðarvald til sjálfstæðra nefnda. Valdið var flutt frá ráðherrum og ráðuneytisstofnunum til fjölskipaðra stjórnvalda sem sækja vald sitt beint til Alþingis. Þótt úrskurðarnefndir séu hluti af framkvæmdavaldinu svipar verkefnum og málsmeðferð oft meira til þess sem gerist hjá dómstólum. Nefndirnar túlka og útfæra lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli, þær úrskurða um rétt eða skyldu einstaklinga og lögaðila, oftast gagnvart ríki eða sveitarfélögum en mál geta líka snúist um rétt eða skyldu einstaklinga eða lögaðila innbyrðis.
Valdframsal til sjálfstæðra úrskurðarnefnda gengur gegn meginreglu íslenska stjórnkerfisins um ráðherrastjórnsýslu. Að nokkru leyti er hægt að rekja stefnubreytingu í þessa átt við uppbyggingu stjórnsýslunnar í lok tuttugustu aldar til evrópuvæðingarinnar.
EES-samningurinn hvatti íslensk stjórnvöld til að byggja stofnanir sínar þannig upp en stundum virðist reyndar hafa verið um að ræða misskilning eða oftúlkun á evrópureglum. Hugmyndir um nýskipan í ríkisrekstri höfðu einnig sitt að segja en þær gera ráð fyrir að
ráðuneyti sinni fyrst og fremst stefnumótun og samhæfingu. Í sumum tilvikum var talið skilvirkara að stofna stjórnsýslunefnd en að fela stofnunum sem fyrir voru verkin. Þau krefðust sérþekkingar sem ekki væri fyrir hendi í ráðuneytum og stofnunum. Þá var það
talið auka trúverðugleika stjórnmálamanna og stefnu þeirra að fela óháðum sérfræðingum ákvarðanir sem þeir tóku áður eða gætu ákveðið að taka ef um ný verkefni var að ræða. Flótti frá ábyrgð getur einnig verið ástæða tillögu um úrskurðarnefnd. Ráðherra sem vill
losna við óþægilegan þrýsting með því að fá lögfesta úrskurðarnefnd er líklegur til að styðja tillögu um slíkt valdframsal rökum um trúverðugleika. Í málefnum einstaklinga er almennt tilhneiging til framsals, en ef mál eru pólitískt viðkvæm, svo sem málefni útlendinga, eða sem snerta mikla fjármálalega hagsmuni í atvinnulífinu virðast ráðherrar hins vegar
tilbúnir til að þola mikinn þrýsting.
Greining er byggð á MPA-riterð höfundar þar sem grein var gerð fyrir niðurstöðum rannsóknar á ástæðum fjölgunar úrskurðarnefnda á árunum 1991-2000. Lögskýringargögn við tilurð þeirra 40 nefnda sem stofnaðar voru á tímabilinu voru könnuð nákvæmlega og rannsóknarviðtöl tekin við sex einstaklinga sem ýmist voru leiðtogar í stjórnmálum eða lykilstarfsmenn í ráðuneytum á þessum tíma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
b.2008.4.2.1.pdf | 122.72 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |