Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9061
Innleiðing Vatnatilskipunar Evrópusambandsins hefur verið samþykkt inn í EES samninginn sem Ísland er aðili að. Í Vatnatilskipuninni og fylgiskjölum hennar eru skilgreind 45 efni og leyfilegur hámarksstyrkur þeirra í yfirborðsvatni. Í þessu verkefni voru efni á forgangslista Vatnatilskipunarinnar metin til að komast að því hver þeirra væri helst að finna í yfirborðsvatni og strandsjó á Íslandi. Efnin voru skönnuð og almennir eiginleikar þeirra metnir. Á grundvelli þessa mats var efnunum skipt í flokkana málmar, varnarefni, PAH efni, efni notuð í iðnaði, PBDE efni og mýkingarefni fyrir plast. Styrkur nokkurra varnarefna var greindur í sýnum úr tveimur straumvötnum og einu strandsjávarsýni á suðvesturhluta Íslands. Auk varnarefnanna voru nokkur lífræn brómsambönd og PAH efni líka greind í strandsjávarsýninu. Sýnatökustaðirnir voru valdir þar sem mengunarálag var talið tiltölulega hátt miðað við ómengaða hluta landsins vegna landbúnaðar, skipaumferðar eða annarra athafna mannsins. Einnig var farið yfir ýmsar mælingar sem hafa verið framkvæmdar á forgangsefnum í íslensku umhverfi. Mögulegar uppsprettur forgangsefnanna og uppsprettur þeirra hérlendis voru líka kannaðar. Á grundvelli þessa mats er efnunum skipt í þrjá forgangsflokka. Í fyrsta forgangi eru efni sem lagt er til að verði vöktuð reglubundið í íslensku lífríki eða yfirborðsvatni. Lagt er til að allir málmar, nokkur varnarefni, mýkingarefni fyrir plast (plasticizers) og PBDE efni séu vöktuð reglulega. Í öðrum forgangi eru efni sem lagt er til að verði skannað fyrir í íslensku lífríki til að kanna tilvist þeirra. Flest varnarefnin og efni úr efnaframleiðslu eru flokkuð í annan forgang. Í þriðja forgangi eru efni sem er talið ólíklegt að finnist í íslensku umhverfi og ekki talin ástæða til að kanna tilvist þeirra með mælingum á yfirborðsvatni eða í lífríki að svo stöddu. Illgresiseyðirinn Alaklór er eina efnið sem er flokkað í þriðja forgang.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mengun í yfirborðsvatni.pdf | 3.85 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |