Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/907
Í þessari lokaritgerð ætlum við að skoða hvað knattspyrnuhallirnar á Íslandi hafa gert fyrir íslenska knattspyrnumenn. Áváðum við að spyrja þá þjálfara sem eru að þjálfa í höllunum og skoða hvað þeir segja um hallirnar. Kom það greinilega í ljós að knattspyrnuhallirnar eru það sem koma skal fyrir knattspyrnuna í framtíðinni á Íslandi. Sökum veðurfarsins hér á landi þá eru hallirnar vel nýttar yfir vetrartímann og eru þær algjör bylting fyrir íslenska knattspyrnumenn. Til að afla gagna var 21 þjálfurum sendur spurningalisti og eru svörin við honum grunnur þeirra gagna sem byggt er á. Að auki voru tekin viðtöl við nokkra þjálfara meistaraflokks karla og eru svör þeirra fléttuð inn í ritgerðina.
Rannsóknin sýndi fram á að allir þjálfararnir eru mjög hrifnir af höllunum þó að margir telji að kuldinn í þeim sem eru óupphitaðar setji smá strik í reikninginn. Knattspyrnuáhuginn hefur í flest öllum tilvikum aukist til muna með tilkomu hallanna sem er mjög jákvætt fyrir framtíðina.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að:
Þjálfararnir eru almennt mjög ánægðir með hallirnar og telja að líkamleg færni hafi aukist með tilkomu þeirra.
Þjálfararnir telja að betra sé að hafa hallirnar upphitaðar og þær séu það sem koma skal í þjálfun íslenskrar knattspyrnu.
Þjálfararnir telja að gæði æfinga sé meiri í knattspyrnuhöllunum og allt skipulag tímabils sé betra.
Með tilkomu knattspyrnuhalla á Íslandi er hægt að stunda knattspyrnu við góðar aðstæður allt árið um kring og eru liðin mun betur undirbúin fyrir sumarið. Þá er líklegt að með tilkomu hallanna muni keppnistímabilið lengjast á komandi árum. Alls eru komnar sex löglegar knattspyrnuhallir á Íslandi; ein á Norðurlandi, ein á Austurlandi, tvær á höfuðborgarsvæðinu, ein í Reykjanesbæ og ein á Akranesi.
Segja má að aðeins vanti höll á Vestfjörðum til þess að komin sé frábær aðstaða fyrir knattspyrnumenn um allt land. Mjög mikilvægt er að landsbyggðarliðin fái hallir til að æfa í svo að höfuðborgarliðin stingi ekki landsbyggðina af eins og hefur gerst á síðustu árum. Öruggt má telja að landsbyggðarliðin muni eflast mikið með tilkomu halla þar.
Lykilorð: Knattspyrnuhallir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
KNATTSPYRNUHALLIRNAR 30.april.pdf | 385.34 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |