Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9202
Hér á landi eru til fáar haldbærar rannsóknir á líkamsástandi slökkviliðsmanna og var það ástæða þess að þetta verkefni var valið. Við teljum að það sé skortur á þekkingu innan þessa sviðs og vonumst eftir því að geta vakið athygli fleiri aðila. Samanburður á atvinnu- og áhugaslökkviliði hefur ekki verið gerður áður og leitaðist rannsóknin eftir því að athuga hver væri líkamlegur munur á þessum liðum.
Þátttakendur (n = 30) voru karlar á aldrinum 20 – 40 ára og skipt niður eftir því hvort þeir voru atvinnumenn í fullu starfi á höfuðborgarsvæðinu (n = 15) eða áhugamenn í hlutastarfi úti á landi (n = 15). Mælingar fyrir áhugaslökkviliðið fóru fram á tveimur stöðum, Akranesi og Selfossi, en notast var við gögn úr rannsókn frá 2007 fyrir atvinnuslökkviliðið. Mælingarnar samanstóðu af hæðarmælingu, þyngdarmælingu, fitumælingu, þolmælingu (VO2max) og hámarksstyrk í bekkpressu (1RM). Út frá hæð og þyngd var svo reiknað út líkamsþyngdarstuðull (e. body mass index, BMI).
Niðurstöður mælinganna leiddu í ljós að ekki var marktækur munur á milli slökkviliða hvað varðar þol, BMI og fituprósentu. Munur fannst hinsvegar á milli þeirra í hámarksstyrk í bekkpressu og var meðaltal atvinnuslökkviliðsins 98,9 ± 13,9 kg og áhugaslökkviliðsins 82,8 ± 16,3 kg (P < 0,05). Þegar niðurstöður allra slökkviliðsmannanna í þessari rannsókn eru bornar saman við erlendar rannsóknir má sjá að íslenskir slökkviliðsmenn eru í góðu líkamlegu formi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskil.pdf | 1.25 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |