Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9226
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna líkamsástand knattspyrnuliðs karla og kvenna. Einnig að kanna hver munurinn er á líkamsástandi þessara flokka og bera niðurstöðurnar saman við rannsóknir á líkamsástandi annarra knattspyrnuliða.
Rannsókn þessi verður vonandi til þess að fleiri taka sér það fyrir hendur að kanna líkamsástand íslenskra knattspyrnuliða en ekki hafa verið birtar niðurstöður úr mörgum rannsóknum hérlendis sambærilegar þessari.
Þátttakendur voru alls 34 og eru leikmenn meistaraflokks karla og kvenna í knattspyrnu hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur oftast nefnt ÍR. Þátttakendur voru (n=21) karlar og (n=13) konur. Framkvæmdar voru fimm mismunandi mælingar til þess að meta líkamsástand flokkanna og fóru þær mælingar fram á tveimur stöðum, annars vegar í Egilshöll þar sem þol var mælt með YO-YO IR1 hlaupaprófi og hámarks súrefnisupptak (VO2 max) áætlað út frá hlaupavegalengd þátttakenda og spretthraði á 10 metum og 30 metrum. Hins vegar í líkamsræktinni Heilsuborg þar sem mælingar á hámarksstyrk í hnébeygju (1RM), uppstökki og líkamssamsetningu voru framkvæmdar.
Niðurstöður mælinganna gáfu til kynna marktækan mun (p<0.05) á milli flokka úr flestum mælingunum en ekki var marktækur munur (p>0.05) á aldri flokkanna eða á líkamsþyngdarstuðli (BMI). Hámarks súrefnisupptaka (VO2 max) flokkanna var 54,28 ± 4,38 ml kg-1 min-1 hjá körlunum og 43,94 ± 1,77 ml kg-1 min-1 hjá konunum. Karlarnir lyftu að meðaltali í hnébeygju 126,54 ± 22,12 kg og konurnar 51,67 ± 16,39 kg. Meðalhæð karlanna í uppstökki var 54,53 ± 5,69 cm og 35,1 ± 5,71 cm hjá konunum. Spretthraði karlanna var 1,77 ± 0,09 sek. á fyrstu 10 metrunum og 4,25 ± 0,12 sek. á 30 metrum en hjá konunum 2,09 ± 0,09 sek. á fyrstu 10 metrunum og 5,11 ± 0,26 sek. á 30 metrum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Líkamsástand_meistaraflokks_karla_og_kvenna.pdf | 1.04 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |