Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9307
Í þessari ritgerð fjalla ég um knattspyrnuumhverfi yngri flokka í Noregi og á Íslandi þar sem ég einblíni á þjálfun 12 ára drengja. Markmið ritgerðarinnar er að fá heildstæða sýn á knattspyrnuumhverfi yngri flokka í löndunum og sjá hvort það sé munur á milli landanna og hvar sá munur liggi helst. Ég setti af stað rannsókn þar sem ég sendi spurningalista með 51 spurningu á þjálfara 12 ára drengja í löndunum tveimur.Spurt var um atriði sem snúa að þjálfurunum, menntun þeirra, vinnuumhverfi og áherslum í þjálfun, einnig leitaði ég svara við hvernig æfingaaðstaða félaganna er og hvernig keppnisfyrirkomulagi er háttað. Ég mun fjalla ítarlega um Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og Knattspyrnusamband Noregs (NFF). Þar á meðal mun ég fara yfir markmið og stefnur sambandanna fyrir yngri flokka auk þess að skoða þjálfaranámskeið sambandanna og almennar knattspyrnuaðstæður í löndunum.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að KSÍ og NFF eru með svipuð markmið og stefnur en það eru nokkur atriði sem sýna greinilegan mun á knattspyrnuumhverfi landanna. Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær að félög á Íslandi leggja meira upp úr keppni sem endurspeglast m.a. í verðlaunum á mótum og getuskiptingu í lið, þjálfarar íslenskra félaga fá laun fyrir þjálfunina á meðan það þekkist varla hjá þjálfurum í norskri barnaknattspyrnu. Knattspyrnusamböndin eru bæði með markmið um menntun þjálfara, en niðurstöðurnar leiða í ljós að íslenskir þjálfarar í rannsókninni eru í meiri mæli menntaðir til að þjálfa knattspyrnu en kollegar þeirra í Noregi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
LokaritgerdOrri.pdf | 1.28 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |