Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9372
Bakgrunnur: Í starfsánægju felst dagleg líðan starfsfólks og huglæg viðhorf til starfsins. Vinnuaðstæður, samskipti við samstarfsfólk og stjórnendur geta haft áhrif á starfsánægju, ásamt stöðugleika stofnana, en nokkuð hefur verið um skipulagsbreytingar undanfarin ár.
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna líðan starfsfólks á hjúkrunardeildum og viðhorf þeirra til stjórnunartengdra þátta, hvort munur væri þar á eftir búsetu eða starfsstétt og hvort tengsl væru milli líðanar í starfi og viðhorfa til starfs og stjórnunar.
Aðferð: Lýsandi þversniðskönnun meðal starfsfólks á meðalstórum heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar. Spurt var um viðhorf til stofnunar og stjórnunarhátta yfirmanns ásamt spurningum um líðan í starfi. Einnig var lagður fyrir viðhorfakvarði Maslachs, sem mælir kulnun í starfi í þremur þáttum; tilfinningaþroti, hlutgervingu og starfsárangri.
Niðurstöður: Svarendur voru 274 (4 karlar), svarhlutfall var 75%. Yfirgnæfandi meirihluti var ánægður í vinnunni (90%) og 69% þátttakenda stefndu að því að vera á sama vinnustað næstu ár. Flestir voru ánægðir með næsta yfirmann sinn (78%) og vinnuaðstöðu (72%), en aðeins 47% með æðstu yfirmenn stofnunar. Sárafáir tóku veikindafrí vegna vanlíðanar á vinnustað (4%). Almenn óánægja var með laun (74%). Þriðjungur þátttakenda hafði orðið var við einelti á vinnustaðnum. Kulnun mældist lítil, þ.e. tilfinningaþrot 6,8 (± 4,5), hlutgerving 5,7 (± 4,7) og starfsárangur 22,8 (± 5,2). Marktæk tengsl voru milli líðanar í starfi og viðhorfa til starfs og stjórnunar, einkum varðandi tilfinningaþrot (R2 = 0,29, p<0,001). Landshlutamunur var á starfsánægju og viðhorfum til stjórnunar í nokkrum þáttum. Á Austur- og Norðurlandi voru þátttakendur oftar ánægðir en á Suður- og Vesturlandi. Færri þættir sýndu mun eftir starfsstéttum. Sjúkraliðar mældust með meira tilfinningaþrot en aðrir (p<0,05) og hjúkrunarfræðingar mældust hærri í starfsárangri en ófaglærðir starfsmenn deildar (p<0,05).
Ályktun: Starfsfólk hjúkrunardeilda er að mestu ánægt í vinnunni. Viðhorf til stjórnunar tengjast starfsánægju og líðan í starfi. Nokkur munur er á viðhorfum, starfsánægju og líðan eftir búsetu og starfsstéttum.
Lykilorð: Stjórnun, starfsánægja, líðan í starfi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Viðhorf til stjórnunar.pdf | 1,98 MB | Opinn | Skoða/Opna |