is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > B.A./B.Ed. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/938

Titill: 
 • Gott er að eiga góðan að : mikilvægi geðtengsla
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Umfjöllunarefni þessa lokaverkefnis er mikilvægi geðtengsla milli foreldra/móður og barns á fyrstu mánuðum í lífi þess. Ljósi er varpað á geðtengslakenninguna en hún byggir á hugmynd John Bolwby og er hann gjarnan nefndur upphafsmaður kenningarinnar. Þar kemur fram að góð geðtengsl, sem byggja á þörf barns að vera í nánum samskiptum við ákveðinn einstakling, sem í flestum tilfellum er móðir þess, geta haft mikil áhrif. Gæði þessara samskipta eru talin geta haft áhrif á hvernig viðkomandi einstaklingi kemur til með að vegna á lífsleið sinni. Athyglin beinist fyrst og fremst að börnum á aldrinum 1–3 ára og þau atriði sem þarf að hafa í huga varðandi aldur þeirra og þroska.
  Fjallað er um atriði sem hafa skal í huga þegar barn byrjar í leikskóla og má þar telja hvernig staðið skuli að aðlögun þess og markmið með foreldrasamstarfi. Þá er leitast við að athuga hvernig hægt er að koma til móts við þá þörf barns að vera í tengslum við ákveðinn einstakling þegar það byrjar í leikskóla. Í því sambandi er kynnt til sögunnar hugmynd um svokallaða lykilpersónu en hún byggir á því að hvert barn hafi sína lykilpersónu til þess að leita til þegar það dvelur í leikskólanum. Þessi lykilpersóna hefur í umsjón sinni ákveðin börn mestan hluta þess tíma sem þau dvelja í leikskólanum og sér um allt það sem að þeim snýr og má þar nefna samskipti við foreldra þeirra.
  Ennfremur er varpað ljósi á hvaða áherslur leikskólar þurfa að leggja hvað varðar umhverfi og skipulag sem hentar börnum á aldrinum 1–3 ára. Þar er nefnt mikilvægi þess að aðbúnaður og leikefni sé við hæfi. Ennfremur er lögð áhersla á að leiknum sé gefinn tími og rúm.
  Könnunarleikur er lítillega kynntur ásamt hugmyndum um hentugan efnivið en leikurinn er talin henta vel börnum á fyrrnefndum aldri. Fjallað er um uppeldisfræðilega skráningu og sagt er frá hvernig hún sem hjálpartæki getur varpað ljósi á ýmsar aðstæður á leikskólanum sem annars er erfitt að henda reiður á í amstri dagsins.
  Niðurstöður ritgerðarinnar sýna að gæði fyrstu geðtengsla milli barns og foreldra geta haft áhrif á hvernig barninu gengur í samskiptum við aðra síðar á ævinni. Ljóst er að ýmsir þættir hafa áhrif á geðtengslamyndun, t.d. barnið sjálft. Þegar barn byrjar í leikskóla er hægt að styrkja áframhaldandi tengslamyndun, t.d. með aðstoð lykilpersónu og góðu foreldrasamstarfi. Jafnframt er ljóst að umhverfi og áherslur leikskólans hafa mikið að segja um það hvort barni líður vel í leikskólanum og finnur fyrir öryggi þar.

Athugasemdir: 
 • Verkefnið er lokað
Samþykkt: 
 • 1.1.2004
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/938


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
gott.pdf297.51 kBLokaðurGott er að eiga góðan að - heildPDF