is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > B.A./B.Ed. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9511

Titill: 
  • Af vettvangsferð til Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Ittoqqortoormiit er nyrsta byggð Austur-Grænlands sem stofnuð var árið 1925, sem liður í nýlendu- og byggðarstefnu Danmerkur. Þar búa nú tæplega fimm hundruð manns sem líkt og mörg önnur samfélög norðurslóða hafa upplifað gríðarlegar og örar félagslegar og menningarlegar breytingar á síðast liðnum áratugum. Á Grænlandi tók breytinganna sérstaklega að gæta í kjölfar „Danmerkurvæðingarinnar“ sem hófst um miðja síðustu öld. Í henni fólst m.a. innleiðing velferðarkerfis að danskri fyrirmynd, þéttbýlisvæðing og aukið vægi peningahagkerfis. Grænland fékk heimastjórn árið 1979 og sjálfstjórn árið 2009.

    Höfundur ritgerðar dvaldi í Ittoqqortoormiit frá 2.-16. desember 2010 við vettvangsrannsóknir. Markmið rannsóknarinnar var að leggja mat á stöðu samfélagsins og varpa ljósi á þau málefni sem bar á góma með því að rýna í fræðilega umræðu. Ritgerðin greinir frá vettvangsferðum m.a. á barinn, bæjarskrifstofuna, lögreglustöðina, ferðaskrifstofuna, í guðsþjónustu og á nokkur heimili í Ittoqqortoormiit. Sjónum er beint á birtingarmyndir samfélags- og menningarlegra breytinga sem gætir í málaflokkum vettvangsferðarinnar og þau útskýrð með tilvísun í heimildir. Má þar nefna breytingar á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum veiðimanna og breyttri stöðu kynjanna. Jafnframt er stiklað á skoðunum og áliti aðila sem tengjast Ittoqqortoormiit með ólíkum hætti.

    Síðasti hluti ritgerðarinnar er helgaður helstu umræðuefnum bæjarbúa. Íbúar Ittoqqortoormiit drógu iðulega fram málefni tengd árferði, árstíðum og dýralífi í samtöl sín við höfund ritgerðar. Nálægðin við hafið og ísinn hefur markað menningu inúíta og enn spilar náttúran stórt hlutverk í lífi og leik íbúa Ittoqqortoormiit sem endurspeglast í umræðuefnum þeirra. Einnig gætir í umræðunni áhrifa utanaðkomandi þátta á borð við loftlagsbreytingar og ákvarðanir stjórnvalda í höfuðstaðnum Nuuk. Í umræðunni mátti jafnframt greina ójafnvægi á milli ímyndar staðarins út á við og sjálfsmyndar samfélagsins jafnt sem hagsmunaárekstra Austur-Grænlands og Vestur-Grænlands en þar er vagga ákvörðunarvalds landsins staðsett.

Athugasemdir: 
  • Af vettvangsferð til Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi
Samþykkt: 
  • 27.6.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9511


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA_ritgerð_Hjordis_Gudm.pdf867.77 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna