Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9534
Skortur á samstilltri athygli (joint attention) er eitt af aðaleinkennum ungra barna með einhverfu og hafa rannsakendur farið í auknum mæli að nota íhlutun sem byggir á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar sem miðar að því að bæta þessa færni. Samstillt athygli felur í sér þá færni að samhæfa áhorf milli samskiptaaðila og hlutar, atburðar eða persónu.
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort tíðni samstilltrar athygli hjá barni með grun um röskun á einhverfurófi, ykist samhliða beinni íhlutun á augnatilliti með aðferðum foreldraráðgjafarinnar Sunny Starts sem byggja á náttúrulegum aðferðum hagnýtra atferlisgreiningar. Þátttakendur rannsóknar voru 5 ára og 8 mánaða gamall drengur, móður hans og sérkennari á leikskóla drengsins. Sérfræðingur í hagnýtri atferlisgreiningu þjálfaði móðir og sérkennara í að beita aðferðum Sunny Starts. Rannsóknin var einliða A-B snið og mælitæki sem hannað var fyrir þessa rannsókn. Niðurstöður rannsóknar voru nokkuð misvísandi. Íhlutun móður jók tíðni svars við samstilltri athygli en dró úr tíðni frumkvæðis að lýsandi samstilltri athygli hjá drengnum að undanskilinni síðustu mælingu. Drengurinn sýndi hærri tíðni frumkvæðis að lýsandi samstilltri athygli við íhlutun hjá sérkennara heldur en í grunnlínu, en tíðni svars var lægri við íhlutun. Möguleg skýring á misvísandi niðurstöðum er að drengurinn sýndi nokkuð virka samskiptahegðun og virtist hafa fá einkenni einhverfu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Samstillt_athygli_BA_ritgerðin.pdf | 553.31 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |