Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/9562
Markmið þessa verkefnis er að skoða viðhorf starfsfólks í frítímastarfi barna og unglinga til kynjaskiptrar starfsemi. Rannsóknin byggir á fjórum viðtölum við starfsfólk í félagsmiðstöðvum og á frístundaheimilum sem tekin voru í marsmánuði 2011. Viðtölin eru orðræðugreind út frá Faucoultískri orðræðugreiningu og sett í samhengi við hugtakaramma Pierre Bourdieu, sögulega þróun skipulagðrar tómstundaiðkunnar og femínískar kenningar. Sérstök áhersla er lögð á að skoða hvernig tómstundastarf barna og unglinga er vettvangur táknbundins ofbeldis. Helstu niðurstöður eru að orðræða viðmælenda er mettuð af tvíhyggjuhugmyndum, gagnkynhneigðu forræði og staðalmyndum um stelpur og stráka. Starfsfólk virðist meðvitað um skaðsemi staðalmynda en ómeðvitað um eigin þátt í framleiðslu á þeim og hefur lítil úrræði til að spyrna gegn mótun þeirra og viðhaldi. Einstaklingshyggja og hugmyndir um lýðræði gefa til kynna undirliggjandi eðlishyggju og ýta undir endurframleiðslu á ríkjandi valdatengslum í samfélaginu. Ýmislegt bendir til að stelpuklúbbar þjóni hlutverki öruggs rýmis eins og þau birtast í skrifum femínista. Nauðsynlegt er að efla menntun og vitund um kynjafræði á meðal starfsfólks í frítímastarfi svo kynjuðum staðalmyndum sé veitt mótspyrna.