Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9674
Inngangur: Gerviliðaaðgerðir bæta lífsgæði sjúklinga einna mest allra aðgerða. Langtímaárangurinn er góður. Gerviliður getur sýkst við sýklun í aðgerð eða með sýklum blóðleiðina. Sýkingartíðni gerviliða er 1-2 %. Leynd sýking er talin geta valdið losi. Sýktur eða laus gerviliður veldur yfirleitt miklum einkennum. Í rannsókninni er skoðaður árangur gerviliðaaðgerða með 20 ára eftirfylgd með tilliti til þess hvort eitthvað ræktaðist í frumaðgerðinni. Slík langtímarannsókn hefur ekki verið framkvæmd áður.
Efni og aðferðir: Frá 1. október 1990 til 30. september 1991 var ræktað frá sjúklingum sem fóru í gerviliðaaðgerð á mjöðm, hné eða öxl á þáverandi Borgarspítala. Skilyrði var frumaðgerð á liðnum. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrárkerfi Landspítala, Gerviliðaskrá Landspítala og ræktunarblöðum frá aðgerð. Árangur sjúklinga með jákvæðar ræktanir var borinn saman við þá sem höfðu neikvæðar ræktanir. Eftirfylgnin miðaðist við 3. mars 2011, enduraðgerð eða andlát sjúklings.
Niðurstöður: Ræktað var frá fjórum stöðum í 126 frumaðgerðum hjá körlum í 49 tilfellum og konum í 77 tilfellum með meðalaldur 68,6 ár. Samtals voru ræktanir frá einum eða fleiri stað jákvæðar í 58 tilfellum (46,0 %). 27 sjúklingar fóru í enduraðgerð á eftirfylgnitímabilinu og var ábendingin los í 15 tilfellum og djúp sýking í þremur. Samanburður á jákvæðum og neikvæðum ræktunum sýndi að hlutfallslega fleiri fóru í enduraðgerð þar sem einhver ræktun var jákvæð. Munurinn var marktækur í samanburði fyrir tvo ræktunarstaði og hlutfallsleg áhætta var til staðar fyrir enduraðgerð ef einhver ræktun var jákvæð. 75 sjúklingar létust á tímabilinu og fóru ekki í enduraðgerð.
Ályktun: Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að ef ræktanir í gerviliðaaðgerðum eru jákvæðar aukast líkur á losi og enduraðgerð samanborið við neikvæðar ræktanir. Helstu veikleikar rannsóknarinnar voru lítið úrtak og ónákvæmni við skráningar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
HeraJohannesdottir.pdf | 214.97 kB | Lokaður | Heildartexti |