Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9791
Ökutækjatryggingar hafa hingað til ekki mikið verið ræddar í sömu andrá og nýsköpun eða vöruþróun, heldur þvert á móti. Nú eru hins vegar blikur á lofti á tryggingamarkaðinum, því þann 1. mars árið 2011 gaf Evrópudómstóllinn út tilskipun um að frá og með 21. desember 2012 væri tryggingafélögum innan sambandsins óheimilt að nota kyn sem hluta af áhættugreiningu. Konum hefur fram til þessa, vegna lægri tjónatíðni, víða staðið til boða að kaupa hagstæðari tryggingar en körlum. Það telur Evrópudómstóllinn ólögmæta mismunun vegna kynferðis. Margir telja að þessi dómur verði fordæmisgefandi fyrir aðra þætti hefðbundins áhættumats eins og þegar áhætta er reiknuð með tilliti til aldurs eða búsetu. Tilgangur þessarar ritgerðar er að rannsaka samband milli aksturs og slysa á Íslandi og kanna kosti aksturstengdra ökutækjatrygginga og áhættumats byggðu á upplýsingum um notkun ökutækja, sem hugsanlega gætu leyst af hólmi núverandi aðferðir við áhættumat tryggingafélaga. Það er gert með því að rannsaka hvort mat á notkun ökutækis gefi betri mynd af raunáhættu, auk þess sem skoðað er hvað það myndi hafa í för með sér fyrir tryggingafélög og viðskiptavini þeirra ef boðið væri upp á slíka vöru. Niðurstaða ritgerðarinnar er að mæling á notkun farartækis gefi betri upplýsingar til að meta raunáhættu á slysum en hefðbundið áhættumat. Sé sú leið valin ásamt virkri endurgjöf um aksturslag til ökumanna, er hægt að draga enn frekar úr áhættunni. Enn fremur vinnur aðferðin gegn vandamálum tengdum ósamhverfum upplýsingum auk þess sem hún getur að líkindum haft mikil og jákvæð ytri áhrif á samfélagið allt.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Aksturstengdar tryggingar Vor 2011 Einar Páll Guðlaugsson.pdf | 5.11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |