Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/9879
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að gera grein fyrir inntaki skilyrða eignarsviptingar skv. 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. fyrsta samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Efnissvið ritgerðarinnar takmarkast við ákvæði MSE og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) og því er ekki fjallað um vernd eignarréttar á Íslandi í ritgerðinni. Skilyrði eignarsviptingar eru fjögur. Samkvæmt eignarréttarákvæði MSE skal eignarsvipting uppfylla þrjú skilyrði, auk þess sem MDE hefur túlkað eignarréttarákvæðið þannig að meðalhófs skuli gætt við eignarsviptingu.
Fyrsta skilyrðið er að eignarsvipting sé reist á lagaheimild. Skilyrðið vísar til þess að eignarsvipting eigi sér stoð í landsrétti aðildarríkja og því verður fjallað um hvaða réttarreglur teljast viðhlítandi að þessu leyti. Það kemur fyrst og fremst í hlut aðildarríkja MSE að túlka og beita ákvæðum landsréttar og af þeim sökum er endurskoðunarvald MDE takmarkað þegar kemur að mati á þessu skilyrði. MDE hefur þó túlkað skilyrðið þannig að það feli ekki einungis í sér formlega heldur einnig efnislega vernd. Þannig skal lagaheimild til eignarsviptingar uppfylla ákveðin skilyrði sem gerð eru til gæða laga þannig að borgararnir séu verndaðir gegn eignarsviptingu byggðri á geðþóttaákvörðun stjórnvalda.
Annað skilyrði eignarsviptingar er að eignarsvipting fari fram í almannaþágu. Í 2. málsl. 1. mgr. eignarréttarákvæðis MSE er ekki að finna upptalningu á lögmætum markmiðum í almannaþágu. Aðildarríki MSE hafa því almennt rúmt svigrúm til mats á því hvaða markmið eru í almannaþágu. Þannig er endurskoðunarvald MDE um mat á lögmætum markmiðum eignarsvipingar háð takmörkunum.
Þriðja skilyrði eignarsviptingar er að kröfum meðalhófsreglunnar hafi verið fullnægt við eignarsviptingu enda þótt 2. málsl. 1. mgr. hafi ekki að geyma beina tilvísun til reglunnar. Við mat á því hvort kröfum meðalhófsreglunar hafi verið fullnægt skiptir máli hvort bætur hafi verið greiddar vegna eignarsviptingar. Aðrir þættir kunna þó einnig að koma til álita í þessu mati, s.s. eyðilegging eigna og réttarfarsleg réttindi.
Fjórða skilyrði eignarsviptingar er að almennra meginreglna þjóðaréttar sé gætt við eignarsviptingu. Skilyrðið á við þegar útlendingar sæta eignarsviptingu en ekki þegar ríkisborgarar eru sviptir eignum sínum. Skilyrðið um að gætt sé almennra meginreglna þjóðaréttar við eignarsviptingu tryggir útlendingum rétt til hæfilegra bóta vegna eignarsviptingar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Margrét_Skilyrði eignarsviptingar skv fyrsta samnin gsviðauka Msamningsviðauka MSE.pdf | 592.4 kB | Lokaður | Heildartexti |