is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9989

Titill: 
  • Holdið og himininn. Smásögurnar „Léttur andardráttur“ og „Aglaja“ eftir Ívan Búnin
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Viðfangsefni þessa lokaverkefnis til B.A. prófs í rússnesku frá Háskóla Íslands eru smásögurnar ,,Léttur andardráttur“ og ,,Aglaja“ eftir rússneska rithöfundinn Ívan Búnin (1870-1953). Verkefnið samanstendur annars vegar af ritgerð um sögurnar tvær og tengsl þeirra við skáldskap Búnins almennt og hins vegar af eigin þýðingum á sögunum úr rússneska frumtextanum. Tilgangur verkefnisins er ekki síst að kynna sýnishorn af verkum Búnins á íslensku, þar sem hann hefur ekki fengið mikla umfjöllun hér á landi. Búnin átti einn lengsta ritferil í sögu rússneskra bókmennta og varð fyrstur Rússa til að hljóta bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1933. Hann var alla tíð ötull andstæðingur sósíalisma og Sovétríkjanna, yfirgaf Rússland fyrir fullt og allt árið 1920 og settist að í Frakklandi, þar sem hann hélt ritstörfum sínum ótrauður áfram.
    Smásagan ,,Léttur andardráttur“ segir frá skólastúlkunni Olju, sem skotin er til bana af afbrýðissömum unnusta sínum í kjölfar þess að hún sýnir honum brot úr dagbók sinni, þar sem hún lýsir því hvernig vinur föður hennar, maður á sextugsaldri og bróðir skólastýru skóla hennar, dregur hana á tálar. Líf og dauði nunnunnar Aglaju er viðfangsefni samnefndrar smásögu Búnins, en Aglaja gengur í klaustur snemma á táningsaldri og afneitar jarðnesku lífi með því að binda um augu sér með klút. Hún lætur lífið á dularfullan hátt eftir skamma dvöl í klaustrinu. Í ritgerðinni dreg ég upp mynd af Búnin sem heimspekilegum höfundi sem gagnrýnir mannlegt siðferði, án þess þó að prédika né miðla siðferðislegum hugsjónum sínum á beinan hátt í verkum sínum. Jafnframt vil ég sýna fram á hvernig ólíkir lífshættir aðalsöguhetjanna Olju og Aglaju endurspegla baráttu mannsins við hverfulleika lífsins, dauðann og viðleitni hans til að öðlast hlutdeild í eilífðinni með andlegum hugsjónum sínum, eins og þær birtast til dæmis í trúarbrögðum.

Samþykkt: 
  • 12.9.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9989


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð+til+B.A.+prófs+LOKASKILpdf.pdf541.52 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna